Við fengum vini í mat um síðustu helgi og buðum upp á líbanskt meze-hlaðborð (meira um það seinna). Þar sem smáréttahlaðborðið tók frekar langan tíma í undirbúningi ákvað ég að hafa mjög fljótlegan eftirrétt og fann þá þessa girnilegu sítrónukladdköku á heimasíðu Hembakat. Eins og allar aðrar kladdkökur var hún svakalega fljótleg og aldrei þessu vant tókst mér að ofbaka hana ekki.
Það er skemst frá því að segja að hún sló algerlega í gegn. Vinur okkar sagði þegar hann tók fyrsta bitann að þetta væri einhver besta kaka sem hann hafði smakkað (Svíar hafa að vísu oftast frekar einfaldan smekk á bakkelsi en það er önnur saga) og honum fannst bara eins og hann væri kominn aftur í eldhúsið til ömmu sinnar. Er hægt að fá fallegra hrós fyrir eldhússtörf? 😀
Kakan var svo góð að ég bakaði hana aftur í gær og þá sagði maðurinn minn að þessi kaka væri komin efst á vinsældalistann hjá honum, hann er nefnilega afar hrifinn af sítrusávöxum og svona “ferskum” kökum. Ég get því ekki annað en mælt með því að þið prófið 🙂
Sítrónukladdkaka
Ca 12 bitar
Hráefni
1 Sítróna
150 gr smjör
3 egg
3 dl sykur
2 tsk vanillusykur
2,5 dl hveiti
Flórsykur til skrauts
Aðferð
Stillið ofninn á 175°c.
Þvoið sítrónuna (ekki verra að kaupa lífrænar sítrónur, sérstaklega þegar á að nota börkinn). Fínrífið börkinn af sítrónunni og pressið út 1 – 2 msk af safanum.
Bræðið smjörið í potti. Takið pottinn af hitanum og blandið öllum hráefnunum út í, ásamt sítrónuberkinum og 1-2 msk af safanum.
Smyrjið lausbotna form með smjöri og stráið jafnvel brauðmylsnu eða kókosmjöli í það. Hellið deiginu í formið. Bakið kökuna mitt í ofninum í 18 – 25 mínútur. Ég baka hana í nákvæmleag 20 mínutur og finnst kakan verða alveg fullkomin við það, aðeins bökuð í jöðrunum en klesst í miðjunni. Látið kökuna kólna alveg, stráið þá flórsykri á hana til skrauts og berið fram með þeyttum rjóma.
2 athugasemdir á “Sítrónukladdkaka”