Sennilega er ég búin að segja það svona 20 sinnum á þessu bloggi en það er fátt sem gerir góða máltíð betri heldur en nýbakað brauð. Eiginlega verður brauðið næstum því aðalrétturinn, svo hefur maður smá grænmetissúpu á kantinum til þess að ljúga því að sjálfri sér að þetta sé nú næstum því bara hollt 😉
Þessi góða uppskrift að ítölsku focacciabrauði er fengin úr hinni ágætu bók Bonniers Kokbok sem ég hef nokkrum sinnum minnst á áður. Mér fannst brauðið heppnast sérlega vel í þetta skiptið, sennilega vegna þess að ég sparaði ekki við mig í ólífuolíunni eins og ég hef stundum gert. Mæli með því að láta bara vaða og nota frekar meira en minna til að pensla brauðið með 🙂
Focacciabrauð
ca. 25 bitar.
Hráefni
5 tsk þurrger/50 gr ferskt ger
6 dl léttmjólk (má skipta út fyrir vatn, að hluta eða öllu leyti)
1,5 tsk salt
0,5 dl ólífuolía
4 dl durumhveiti (240 gr. má skipta út fyrir venjulegt hveiti)
9-10 dl hveiti (540 – 600 gr)
Til að bera á brauðið:
½ dl ólífuolía
½ msk þurrkað rósmarín eða 2 msk ferskt rósmarín
Flögusalt
Aðferð
Blandið þurrgerinu saman við hveitið. Blandið öllum þurrefnunum út í hveitið, hitið mjólkina að 37°c og blandið saman við þurrefnin. Hnoðið vel saman þar til deigið er orðið mjúkt en aðeins klístrað. Látið hefast undir viskastykki í 40 mínútur.
Smyrjið ofnskúffu með ólífuolíu. Hellið deiginu beint á ofnskúffuna, berið smá ólívuolífu á hendurnar og notið fingurna til að breiða úr deiginu í skúffunni. Látið hefast í 35 mín. Stillið ofninn á 200°c.
Þegar deigið hefur hefast ýtið þá fingrunum niður í deigið hér og þar um deigið. Penslið deigið með ólífuolíunni og stráið grófu salti og rósmaríni á það.
Bakið neðarlega í ofninum í 20 – 25 mínútur eða þar til gullinbrúnt.