Kökur

Kanilsnúða-kladdkaka

IMG_17141
Eftir vinsældir sítrónukladdkökunnar hér á heimilinu langaði mig að prófa fleiri tegundir af þessari uppáháldsköku margra Svía. Fann eina sem öskraði á mig á hembakat, ég meina kanilsnúðakladdkaka? Af hverju hverju var ég ekki búin að prófa hana fyrr? Skil þetta bara ekki!
Ég bakaði hana óvart aðeins of lengi, kladdkökur á alls ekki að baka í gegn, þær eiga að vera aðeins óbakaðar í miðjunni. Það kom hins vegar ekki að sök – hún var sjúklega góð (má vera að ég sé ekki hlutlaus, ég stenst ekkert sem er með kanil í!). Eins og allar kladdkökur þá er mjög fljótlegt að skella í hana, kladdkökur eru ekki þeyttar heldur öllum hráefnum bara hrært saman með sleif og inn í ofn. Gæti ekki verið einfaldara 🙂

Kanilsnúðakladdkaka
10 – 12 bitar
150 gr smjör
2,5 dl sykur
1 tsk vanillusykur
1 msk kanill
Salt á hnífsoddi
2,5 dl hveiti
2 egg
Perslusykur til skrauts
Aðferð
Stillið ofninn á 200°c. Bræðið smjörið í potti og látið kólna aðeins. Setjið afganginn af hráefnunum út í pottinn og hrærið með sleif.
Hellið deiginu í smurt springform, 22 – 23 cm stórt. Stráið perlusykri yfir ( er ekki viss um að hann sé yfirhöfuð til heima, má alveg sleppa). Bakið kökuna í 15 – 20 mín. eftir því hversu blauta þið viljið hafa hana. Berið fram með þeyttum rjóma.

Færðu inn athugasemd