
Ég tók mig til í síðustu viku og gróðursetti rabbabara út í garði en það verður víst dálítið löng bið á uppskeru frá honum (minnst eitt ár) þannig að við verðum að láta okkur hafa að kaupa hann út í búð. Sem betur fer er komið sumar og framboðið á rabbabara í búðum er mikið um þessar mundir.
Í matarboði gærdagsins varð einfalt rabbabarapæ fyrir valinu (eða það sem Svíarnir kalla smulpaj (sem myndi kannski geta útlagst sem molapæ á íslensku 😛 )) og ég get ekki annað en verið ánægð með afraksturinn sem var smá samsuða af uppskriftum sem ég las á netinu 🙂
Einfalt rabbabarapæ
700 gr rabbabari
1/2 – 1 dl sykur
2 dl hveiti
1 dl sykur (það má minnka sykurmagnið um 1/2 – 1 dl ef vill)
1 dl ljós púðursykur*
1 dl haframjöl
125 gr smjör/smjörlíki
Stillið ofninn á 200°c
Skerið rabbabarann í litla bita. Blandið saman við 1 dl af sykur. Setjið í eldfast mót.
Blandið hveiti, haframjöli og sykrunum saman. Skerið smjörið í litla bita og myljið saman við þurrefnin þar til blandan er orðin sæmilega fínkornótt. Stráið yfir rabbabarann.
Bakið í ca. 20 – 25 mínútur eða þar til rabbabarinn er orðinn mjúkur og kurlið orðið gullinbrúnt.
