
Eftir síðustu færslu fékk ég sérstaka beiðni um að deila uppskriftinni að „einhverri albestu súkkulaðismákökuuppskrift sem ég hef smakkað“ sem ég minntist á og ég ákvað að drífa í að birta hana áður en þetta gleymdist. Uppskriftin kemur eins og hin úr Sally’s cookie addiction og ég lofa því að hún er fáránleg góð 🙂

Mjúkar súkkulaðibitakökur
- 270 gr hveiti
- 1,5 tsk maízena mjöl (má sleppa)
- 1 tsk matarsódi
- 1/2 tsk salt
- 180 gr smjör, brætt
- 170 gr ljós púðursykur
- 50 gr sykur
- 1 egg + 1 eggjarauða
- 2 tsk vanillusykur
- 240 gr súkkulaðibitar
Blandið saman hveiti, maízena mjöli, matarsóda, vanillusykri og salti í skál. Setjið til hliðar.
Þeytið saman sykur og smjör þar til vel blandað. Þeytið egginu og eggjarauðunni saman við.
Bætið þurrefnunum út í smjörblönduna og blandið saman með sleif eða sleikju. Bætið súkkulaðibitunum út í. Setjið filmu yfir skálina og kælið deigið í ca. 2 klst. Ef þið kælið það lengur en 4 klst þurfið þið að leyfa því að standa við stofuhita í ca. 30 mínútur.
Stillið ofninn á 170°c. Setjið ca. 2 msk af deigi fyrir hverja köku á bökunarplötu og bakið í 12 – 13 mín. eða þar til kökurnar eru farnar að brúnast. Miðjan á kökunum á að vera mjúk.
Njótið 🙂

Ein athugasemd á “Mjúkar súkkulaðibitakökur”