Annað

Geocaching – Stuttur Leiðarvísir –

Við fjölskyldan höfum í mörg ár dundað okkur við að finna geocaching. Oft hef ég sett inn myndir af því þegar við erum að hafast að við þetta og undantekningalaust fæ ég spurningar frá vinum og vandamönnum um hvað þetta eiginlega snúist um. Ég hef oft velt því fyrir mér að gera stutta bloggfærslu til að útskýra hvað þetta eiginlega er og gefa byrjendaleiðbeiningar til þeirra sem hafa áhuga á að prófa þetta og það er svei mér þá bara komið að því !

Fundum það!

Hvað er geocaching?
Stutta útskýring er sú að geocaching er (alvöru) fjársjóðsleit/feluleikur með hjálp gps-hnita sem passar bæði börnum og fullorðnum og er alveg upplögð dægradvöl fyrir fjölskyldur.

Lengri útskýringin er sú að fyrir næstum tveimur áratugum, þegar GPS-hnit voru gerð nákvæmari (eða kannski fólki var gert kleyft að nálgast nákvæmari hnit) datt Bandaríkjamanni í hug að prófa nákvæmnina með því að „fela hlut“ á ákveðnum gps-hnitum. Síðan birti hann hnitinn á spjallsíðu á netinu og fólk gat farið og reynt að finna hlutinn út frá þessum hnitum. Hluturinn sem hann faldi var lítill kassi með myndum, vídjóupptöku og sitthverju fleira.

Segja má að geocaching sé í raun nákvæmlega sami hluturinn enn þann dag í dag. Munurinn er bara sá að í dag eru sennilega milljónir svona lítilla geocaching-kassa (kallað containers á ensku) faldir út um allan heim, allir með sín gps-hnit sem gerir öðru fólki kleyft að leita að þeim. Flestir þeirra eru alvöru kassar, með alvöru innihaldi. Sumir eru m.a.s. nokkuð stórir og eru með litlum leikföngum í. Ég vil þó taka fram strax að það er bannað fjarlægja innihald úr þessum kössum án þess að skilja eitthvað eftir: „take one – leave one“ gildr hér.

Bakvið þessa svörtu plötu var cache falið!
Þetta box semsagt 🙂

Hvernig er best að byrja ef þig langar að prófa?

Ég hef sjálf eingöngu notast við síðuna geocaching.com (mér skilst að það séu til fleiri síður en sú en ég held að þetta sé sú stærsta). Á þeirri síðu er skráður ótrúlegur fjöldi „fjársjóða“ og þar má t.d. fara inn og slá inn götunafn eða bæjarnafn og sjá hvað er til af fjársjóðum í nágreninu. Gott að er að skapa sér account þar og byrja svo að leita að geocöchum í nágrenninu. Ég mæli þó með að lesa aðeins áfram því ég er með nokkur tips sem er mjög gott að hafa í huga fyrir byrjendur.

Til þess að leita að fjárjóðum þurfti upphaflega að hafa gps-tæki en núna eru allir smartsímar búnir þessari tækni. Það er auðvelt að ná sér í geocaching app – bæði fyrir apple og android. Ég nota það sem passar við geocaching.com (groundspeak.com appið). Ég borga reyndar fyrir premium útgáfuna en í basic útgáfunni er þó hægt að leita að fjársjóðum út frá ákvðenum kríteríum, t.d. bæði nafni, staðsetningu (þinni eigin eða á korti osfrv.). Ekki er þó hægt að leita að cöchum sem eru erfiðari en 2 og með hærra „terrain“-erfiðleikastig en 2 nema maður borgi fyrir þjónustuna.

Groundspeak appið – hér má hlaða því niður

Þægilegasta leiðin til að prófa að leita að cachi er að finna hvaða fjársjóðir eru í stuttri fjarlægð frá heimili þínu. Í Reykjavík eru a.m.k. allar líkur á að það sé cache í göngufjarlægð. Ég ráðlegg að gera smá rannsókn á cöchunum áður en haldið er af stað, og það er til þess að fyrsta ferðin verði ekki súr fýluferð þar sem enginn finnur neitt.

Hér gefur að líta alla fjársjóði sem eru undir 2 í erfiðleikastigi í Reykjavík.

Þetta cache er einstaklega gott fyrir byrjendur, í miðri Reykjavík og auðvelt aðgengi og létt að finna. Dæmin hér á eftir eru öll tekin frá því 🙂

1. Skoða „difficulty“ (erfiðleikastig).
Erfiðleikastigin eru 5 og þau eiga að tákna hversu erfitt er að finna cachið. 1 er auðvelt, 5 er mjög erfitt. Ég stilli leitina af og leita ekki að neinu sem er erfiðara en 2. Ástæðan er sú að ég er alltaf með börn með mér og það er oft nógu erfitt að finna þau auðveldu. 5 er eitthvað sem tekur mjög langan tíma fyrir reyndar cachara og kanski ekki alveg málið á fyrsta geocaching-deitinu þínu.

Erfiðleikastig

2. Skoða „terrain“ 
Terrain táknar hversu erfitt svæðið er yfirferðar. 1 er flatlendi, 5 getur verið neðanjarðar í stöðuvatni. Ég leita bara að einhverju sem er ekki meira en 2 – af sömu ástæðu og ofan. Við erum ekki á þeim stað þar sem við viljum vera klifra upp í trjám til að leita að cöchum. Ég myndi sennilega leita að cachi sem er með terrain 1 í fyrsta skipti sem ég leita.

3. Skoða stærð fjársjóðs (container eða cache size).
Það eru margar mismunandi stærðir af kössum: micro, small, medium, large (og eflaust millistærðir sem ég er að gleyma). Það er langmest af micro-cöchum. Ástæðan er einfaldlega sú að það er langauðveldast að fela þau (af augljósum ástæðum). Slíkir fjársjóðir innihalda ekkert meira en loggbók og kannski penna. Ef maður er að prófa að leita að cöchum í fyrsta skipti með krökkum getur verið skemmtilegt að reyna að finna stóra kassa, krökkum finnst það ótrúlega spennandi. Mínum krökkum fannst smá anti-climax að finna micro-fjársjóði þegar þau voru mjög lítil. Þá er gott að muna að hafa einhvern smáhlut með sér (medalíu, legokall, lyklakippu osfrv) til að skilja eftir ef það er eitthvað spennandi ofan í kassanum til að taka.

4. Hefur cachið verið fundið nýlega?
Það getur verið sniðugt að kíkja á hvort fjársjóðurinn hefur verið fundinn nýlega. Það gerist oft að fjársjóðir týnast (eða er stolið) eða skemmast og þá kemur það fram á heimasíðunni/appinu – þar eru svokallaðir loggar sem „finnendur“ skrifa og ef það er orðið mjög langt síðan hann var fundinn síðast þá er það ástæða til að staldra aðeins við.  Það er ekki gaman að drífa sig út í geochaching skemmtun bara til að komast að því að fjársjóðurinn er horfinn.

Samantekt:
Ef þú ert byrjandi veldu þá geocache sem er:

  1. Erfiðleikastig 1
  2. Terrain 1
  3. Stór container (sérstaklega ef litlir krakkar eru með)
  4. Skoðaðu hvort að cachið sem þú ætlar að leita að sé ekki örugglega aktívt/hafi verið fundið nýlega.

Að lokum:

Til að byrja að leita er það eina sem þú þarft að gera að ná í geocaching appið, og búa til account. Þegar þú ert búin að því er þér ekkert að vanbúnaði til að drífa þig út að leita. Það eina sem þarf að gera þegar þú finnur cachið er að skrifa nafnið þitt í loggbókina (það er svo skemmtilegt fyrir þann sem faldi) og að logga það á heimasíðunni.

Þrennt til að hafa í huga:

  • Samkvæmt geocaching reglum má ekki láta sjá að maður sé að leita að cöchum, manni ber að fara dálítið leynilega að. Það getur bæði verið erfitt og spennandi á fjölförnum stöðum.
  • Það ber að sýna náttúru og manngerðum stöðum virðingu þar sem fjársjóðir eru faldir, skiljið alltaf við allt eins og þið funduð það og setjið cachið á nákvæmlega sama stað og þið tókuð það.
  • Það er stranglega bannað að skilja peninga eða eitthvað matarkyns eftir í kössunum.

Auka tips:
Gott er að skoða hvort að það sé til vísbendingar – ef þau eru til staðar koma þau fram í appinu og mjög gott að tékka hvort það sé til staðar þegar maður er byrjandi og með krökkum.

Þarna er hægt að skoða vísbendingar.

Í sumum fjársjóðum, þá sérstaklega þeim stærri, eru svokallaðar „travelling bugs“. Það eru litlir hlutir sem einhver hefur keypt, skráð með einstöku skráningarnúmeri á geocaching.com og sem hefur einhvern tilgang; t.d. að ferðast í kringum heiminn, komast alla leið til Japan o.s.frv. Eigandi „pöddunnar“ getur svo fylgst með ferðalaginu af því að þeir sem finna hana og ákveða að taka og fara með í annað cache skrá það á geocaching.com. Ekki taka svona pöddu ef þú ætlar ekki að setja hana í annað cache.

Hér er hægt að sjá hvaða “traveling bugs” ef einhver, eru í appinu.

Að síðustu langar mig til að benda á að það eru til annar skonar cöche en þau hefðbundnu, það eru til þrautir þar sem leysta þarf gátur til að finna hitin, það eru til svo kölluð multi-caches þar sem þau tengjast öll og þarf að leysa einhver hnit og slíkt, það eru til virtual-caches þar sem cacheið er eitthvað annað en hlutur og svo mætti áfram telja. Ef menn fá áhuga á þessu getur verið gaman að prófa slíka fjársjóði líka 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s