Aðventa · Jól · Kökur

Piparkökukladdkaka

Í gær (7. nóvember) var hinn árlegi dagur kladdkökunnar í Svíþjóð. Kladdkökur eru sennilega eitthvað vinsælasta bakkelsi Svíþjóðar, á sænskum matar- og bakstursbloggum eru t.d. yfirleitt tugir mismunandi uppskrifta að þessu góðgæti og ástæðan er einföld; fyrir utan að vera æðislega góðar að þá eru þær ótrúlega einfaldar í bakstri og mjög fljótlegar (fyrir utan smá biðtíma þegar þær eru að kólna). Þær eru almennt bara hrærðar saman í pottinum sem maður bræðir smjörið í, enga hrærivél þarf og baksturinn er alger barnaleikur. Það sést kannski best á því að 9 ára dóttir mín bakar sjálf kladdkökur án nokkurrar aðstoðar.

Við höfum birt nokkrar kladdkökuuppskriftir í gegnum tíðina, t.d. sítrónukladdköku (uppáháldið mitt), dajmkladdköku, kanilsnúðakladdköku og chilikladdköku og þessi fer í hópinn. Verð að viðurkenna að botninn á þessari er einstaklega vel heppnaður og fær toppmeðmæli (hann er þykkari en oftast er með kladdkökur sem eru oft mjög þunnar).

Svo er ekki verra að þjófstarta aðeins aðventufílíngnum með þessu gómsæti – við kunnum allavega vel að meta smá piparkökubragð þegar við gæddum okkur á kökunni í gær 🙂

Piparkökukladdkaka

150 gr smjör
2,25 dl sykur
1,5 dl púðursykur
2 tsk vanillusykur (má nota vanilludropa)
3 egg
2,25 dl hveiti
0,75 dl kakó
Salt á hnífsoddi
1 msk kanill
1 tsk negull (malaður)
1,5 tsk engifer (malaður)
1 tsk kardimomma (möluð)

Súkkulaðikrem (ganache)

100 gr suðusúkkulaði
1 dl rjómi

Piparkökur og flórsykur til skrauts

Aðferð

Ofninn stilltur á 175°c (ekki blástur).

Bræðið smjörið í potti.

Blandið öllum innihaldsefnum saman, ásamt smjörinu og hrærið (með sleif t.d. – EKKI hræra saman í hrærivél) þar til deigið er vel blandað saman.

Smyrjið 23 cm form með smjöri. Bakið kökuna í 20-25 mín. Kakan á að vera óbökuð í miðjunni þegar hún er tekin út, en kantarnir eru þá bakaðir (þannig að hún fellur örlítið í miðjunni). Látið kökuna kólna alveg í ísskáp áður en hún er skreytt.

Súkkulaðikrem (ganache)

Hakkið súkkulaðið í litla bita og setjið í skál. Hitið rjómann að suðu og hellið þá yfir súkkulaðið og hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðið og glassúrinn er vel blandaður saman.

Látið kremið kólna aðeins áður en það er settur á kökuna. Skreytið ef vill með nokkrum piparkökum og sáldrið flórsykri yfir.

(Uppskrift fengin héðan: https://mykitchenstories.se/pepparkakskladdkaka/ )

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s