Hafiði einhvern tíman sé þáttinn “The Great British Bake Off”? Það er til sænsk eftirherma: “Hela Sverige Bakar” sem gengur út á að heimabakarar (semsagt ekki atvinnufólk) keppir í bakstri – ég á reyndar oft erfitt með að horfa á þetta því ég verð svo ótrúlega stressuð þegar ég sé hvað þau þurfa að baka undir mikilli tímapressu! Hver þáttur er tvískiptur, annars vegar eiga þau að baka einhvern sænskan standard og svo fá þau að láta hugmyndaflugið njóta sín í hinni áskoruninni.
Í e-m þættinum í síðustu þáttaröð áttu þau að baka hina klassísku sænsku massarínuköku og síðan þá hefur mig langað til að baka slíka köku sjálf enda gríðarlegur marsípan-aðdándi! Ég held reyndar að mín myndi ekki fá sérlega góða dóma hjá dómurunum í keppninni, þau lögðu mikla áherslu á að glassúrinn væri jafn og fallegur og minn tókst ekki nógu vel – ég átti nefnilega ekki nógu mikið af glassúr 😉
En góð var hún, um það er engin spurning!
Massarínukaka
Smjördeig
5 dl hveiti
200 gr. smjör við stofuhita
1,5 dl sykur
Marsípanfylling
200 gr marzipan
100 gr. smjör við stofuhita
2 egg
Glassúr
2,5 dl flórsykur
Vatn
Aðferð:
Smjördeig
Setjið hveiti, smjör og sykur í matvinnsluvél. Vinnið þar til þetta er orðið að deigi. (Þá má líka merja þetta saman með fingrunum). Búið til bolta úr deiginu og setjið í skál og í kæli í 15 – 30 mín. Stillið ofninn á 180°c.
Fletjið deigið út, ca. 26 cm í þvermál. Setjið í form með lausum kanti, 23 – 24 cm í þvermál sem búið er að setja bökunarpappír í botninn á (ég reyndar þrýsti bara deigininu í botninn og upp með hliðunum, virkaði vel). Deigið á að ná 2 – 3 cm upp með hliðunum.
Fylling
Þeytið saman marzipan og smjör þar til orðið alveg mjúkt. Bætið þá eggjunum við, einu í einu og þeytið vel á milli. Setjið fyllinguna á bökubotninn, jafnið vel út og ýtið svo á bökukantana þannig að þeir séu í u.þ.b. sömu hæð og fyllingin.
Bakið í 35 – 40 mín. Látið kökuna kólna alveg áður en þið setjið glassúrinn á. Glassúrinn er gerður með því að blanda saman flórsykrinum og vatni þangað til hann er hæfilega þykkur, hann má ekki verða of þunnur því þá lekur hann bara af kökunni.