Okkur var boðið að vera með uppskrift í fréttablaðinu 🙂 Við ákváðum að slá til og deila með lesendum fréttablaðsins uppskrift að súkkulaðikökunni hennar mömmu. Ég er margoft búin að dásama þessa köku og hindberjasmjörkremið hérna á blogginu, meðal annars hér, hér og hér . 🙂
Uppskriftir
Gott er að gera marengstoppana með smá fyrirvara
Marengstoppar
3 dl sykur
4 eggjahvítur
Hitið ofninn í 120 gráður með blæstri
Þeytið egghvíturnar, þegar þær eru farnar að freyða skal hella sykrinum saman við í litlum skömmtum og þeyta vel á milli. Þeytið þar til marengsinn er stífur.
Litið marengsinn að vild og setjið í sprautupoka. Sprautið litlum toppum á bökunarpappír. Skemmtilegt er að gera toppana í nokkrum litum og mismunandi í laginu.
Bakið í 60 min. Ágætt er að leyfa toppunum að kólna inní ofninum yfir nótt.
Súkkulaðikaka
2 bollar hveiti
1,5 tsk lyftiduft
0.5 tsk matarsódi
1 tsk salt
1.5 bolli sykur
200 gr smjör
1 bolli mjólk
2 stór egg
2-3 msk kakó
Kveikt á ofninum 175°c.
Öllum efnum nema eggjum blandað saman í skál og hrært með hrærivél í 2 mín eða þar til allt er vel blandað saman. Eggin látin útí og hrært áfram í ca 2 mín. Sett í 2 smurð lausbotna form og bakað í um það bil 35 mín eða þar til prjónn kemur hreinn út þegar stundið er í kökuna. Látið kökuna alveg kólna áður en smjörkremið er sett á hana.
Súkkulaðiganache
110 gr suðusúkkulaði
½ bolli rjómi
salt á hnífsoddi
Hakkið niður súkkulaðið og setjið í skál með saltinu. Hitið rjómann að suðu og helli yfir súkkulaðið. Látið standa í 10 mín án þess að hræra. Hrærið súkkulaðinu vel saman við rjómann og leyfið að kólna.
Hindberjasmjörkrem
110 gr smjör
1,25 dl frosin (eða fersk) hindber
1/2 tsk vanilludropar
450 gr flórsykur
Smjöri, hindberjum og vanilludropum hrært mjög vel saman. Flórsykrinum bætt saman við smátt og smátt, og þeytt vel á milli. Eins og alltaf með smjörkrem þarf að stilla magn flórsykurs af þannig að kremið verði hæfilega þykkt.
Samsetning
Setjið annan kökubotninn á fat, smyrjið smjörkremi á kökubotninn og leggið síðan hinn kökubontinn ofaná. Þekið kökuna með smjörkreminu. Gott er að skella kökunni í kæli í smá stund til að kremið stífni aðeins. Látið súkkulaðiganache á kökuna að vild og raðið marengstoppum ofaná eftir smekk.