Peruterta er auðvitað klassíker á íslenskum kökuborðum en þessa bakaði ég síðasta sumar fyrir Simma vin minn þegar hann átti afmæli!
Hægt er að nota hvaða svampbotn sem er í raun en ég er voða hrifin af botninum í Silvíuköku
Peruterta
Svampbotn
3 egg
3 dl sykur
1.5 dl vatn
3 dl hveiti
3 tsk lyftiduft
Sykur og egg þeytt saman, vatni þeytt saman við stuttlega, svo er hveiti og lyftidufti bætt við. Hellt í 2 kringlótt smurð mót eða smurða ofnskúffu. Bakað í 30 mín ef notuð eru kringlótt mót en 15 mín ef notuð er ofnskúffa, á 175°c eða þar til prjónn kemur þurr uppúr deiginu.
Krem
3 eggjarauður
4 msk flórsykur
100 g suðusúkkulaði
2 1/2 dl rjómi
1 stór dós niðursoðnar perur
Byrjið á því að þeyta eggjarauður og flórsykur vel saman.
Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði, leyfið súkkulaðinu að kólna aðeins áður en því er helt varlega saman við eggjarauðurnar. Þeytið rjómann og hrærið honum saman við.
Kakan sett saman
Leggið annan svampbotninn á kökufat og bleytið uppí honum með ca 1 dl af perusafa. Takið frá 4-6 peruhelminga og sneiðið restina niður. Dreifið niðurskornu perunum á svampbotninn. Smyrjið um það bil helmingnum af kreminu yfir perurnar og hinn botninn lagður ofan á. Bleytið upp í seinni botninum (má sleppa). Skreytt með afgangnum af kreminu og perunum sem voru teknar til hliðar.