
Núna er jarðaberjaárstíminn alveg að bresta á í Svíþjóð. Reyndar var þetta kaldasta vor í Svíþjóð (og blautasta) í 200 ár þannig að menn hafa verulegar áhyggjur af jarðaberjauppskerunni þetta árið en næsta helgi er midsommar-hátíðin og þá standa jarðaberjatertur á meira og minna öllum borðum í Svíþjóð og þá eiga það helst að vera sænsk jarðaber, midsommartertan smakkast víst ekki jafn vel með innfluttum jarðaberjum.
Það eru semsagt komin sænsk jarðaber í búðir, rándýr (ég ætla ekki að segja ykkur hvað þessi sem ég notaði í þessa tertu kostuðu) og mér fannst ekki úr vegi að prófa nýja kökuuppskrift svona í tilefni dagsins 🙂
ATH: Í tertuna er notuð karamella sem kallast “dulce de leche”. Þessi karamella er búin til úr sætri niðursoðinni mjólk sem er soðin í potti í 2 – 3 tíma og úr verður þessi dúndurgóða karamella. Enn einfaldara er að kaupa bara “caramelized milk” í dós, en þá er búið að sjóða dósina fyrir mann og maður þarf ekkert að vesenast. Ég spurðist aðeins fyrir og mér skilst að það sé hægt að fá caramelized mjólk bæði í Hagkaup og Kosti og mögulega víðar, sweetened condensed mjólk er víst líka hægt að fá í mörgum asíubúðum. Nú – og ef í harðbakkan slær má bara nota venjulega karamellusósu, bara ekki of mikið því hún er aðeins sætari en caramelized mjólk.

Jarðaberjaterta með dulce de leche
1 dós “sweetened condensed milk” eða ef þið finnið þá: “caramelized milk” (eða í versta falli venjuleg karamellusósa ef þið finnið ekki niðursoðna mjólk.
150 gr smjör
300 gr digestive kex
0,5 – 1 líter jarðaber
150 gr daim súkkulaði
3 dl rjómi
Aðferð
Karamella:
Athugið: Ef þið kaupið caramelized mjólk þá er búið að sjóða hana niður og þið þurfið ekki að fara í gegnum þetta skref, þetta er bara fyrir “condensed milk” sem er ekki búið að sjóða niður.
Setjið dósina með condensed milk óopnaða í stóran pott. Setjið vatn yfir svo að dósin sé alveg á kafi og vel það. Látið malla í 2,5 tíma (potturin á ekki að vera með lokinu á) og passið vel upp á að vatnið þeki dósina allan tíman, ef vatnið minnkar bætið þá á (ef að vatnið þekur ekki dósina getur hún víst í versta fallið sprungið). Takið dósina upp og skolið í köldu vatna. Látið kólna alveg og opnið svo dósina – mjólkin er nú orði að karamellu sem er oft kölluð “dulche de leche”.
Kakan:
Myljið kexið alveg (ég setti mitt í matvinnsluvél). Bræðið smjörið og blandið vel saman við kexið.
Klæðið 24 – 25 cm springform með plastfilmu. Þrýstið kexblöndunni í botninn á forminu og kælið í ca. klst. Losið að því loknu hliðarnar frá forminu, takið botninn upp úr því og losið plastið varlega frá botninum og leggið hann svo á tertufat/disk.
Hakkið daimið í litla bita og blandið 2/3 af því saman við vel þeyttan rjómann.
Smyrjið karamellunni á tertubotninn, setjið rjómann yfir og setjið svo jarðaberin ofan á. Stráið að lokum afgangnum af daiminu yfir herlegheitin.