Áður en við fluttum til Svíþjóðar bakaði ég þessa köku reglulega. Halli er ekkert sérstaklega hrifinn af henni og eftir að við systurnar byrjuðum með þetta blogg var komin einhver voða pressa með að koma alltaf með eitthvað nýtt og því hætti ég að baka gömlu góðu uppskriftirnar.
Þegar ég bakaði hana oft googlaði ég uppskriftina í hvert sinn sem ég bakaði hana. Í dag gerði ég það eina ferðina enn. Ég skoðaði margar uppskriftir og komst þá að því að það eru “allir” að nota sömu uppskriftina. Það eru ótrúlega góð meðmæli með uppskrift 😉 Ég held að uppskriftina megi rekja til Jóa Fel en hún var gefnin út í fyrstu Hagkaupsbókinni (1996). Í þeirri bók er líka að finna marengsuppskriftina sem ég nota alltaf 🙂

Þetta er ein af þeim kökum sem ég á mjög erfitt með að hemja mig við að borða ekki alla sama daginn…
Sjónvarpskaka
300 gr sykur
4 egg
250 gr hveiti
2 tsk lyftiduft
2 tsk vanillusykur
2 dl mjólk
50 gr smjör
Kókoskaramella
125 gr smjör
125 gr púðursykur
100 gr kókosmjöl
4 mks mjólk

Þeytið saman sykur og egg þar til að það er létt og ljóst. Sigtið saman við eggin hveiti, vanillusykur og lyftiduft, hrærið vel saman. Setjið mjólk og smjör saman og hitið í potti eða örbylgjuofni þar til smjörið bráðnar (má ekki vera sjóðandi heitt). Hrærið saman við deigið.
Smyrjiðj springform með smjöri og sáldrið hveiti yfir. Hellið deiginu í formið. Bakið í ca 20 min við 180°. Við val á kökuformi þarf að hafa í huga að breita bökunnartíma í samræmi. Ég var með tvö ferköntuð form og bakaði því bara í 15 mín.
Hrærið saman öllum innihaldsefnunum fyrir karamelluna í pott og sjóðið við lágan hita í ca 5 min.
Þegar kakan er búin að bakast er hún tekin út og karamellunni smurt ofan á. Kakan er svo bökuð aftur í ca 12 min.

