Eftir að við fluttum á Sauðárkrók er aðeins auðveldara fyrir þá sem vilja koma í heimsókn til okkar að koma án þess að eyða í það fúlgu fjár 🙂 Strætó meira að segja stoppar hérna hjá okkur. Helga vinkona mín kom í heimsókn um daginn með börnin sín með sér og var hjá okkur í nokkra daga. Við vorum svo heppin að hún bauðst til að elda þennan gómsæta rétt fyrir okkur 🙂 Það er nú ekki hægt að segja að þetta sé fljótlegt og einfalt en aftur á móti er þetta svona gómsætur haust pottréttur sem dugar í nokkra daga og öruglega mjög fínt að frysta til að eiga seinna.
Japanskt Curry
5-600 gr. úrbeinuð kjúklingalæri
2-3 laukar
1/2 cm rifinn engifer
2-3 hvítlauksrif, pressuð
Salt og pipar
4 stórar gulrætur
3-4 stórar kartöflur
2-3 paprikur
1l. kjúklingasoð
salt og pipar
1 stórt epli
Curry roux
ca. 1,5 msk soyasósa
ca. 1 msk chilitómatssósa
100g smjör
6 msk hveiti
2 msk gott karrí
2 msk garam masala
1 tsk cayenne pipar
Brytjið kartöflurnar og leggið í bleyti til að losna við sterkju úr þeim. Skerið laukinn í sneiðar og brúnið í olíu í stórum potti þar til glær. Bætið við rifnum engifer og pressuðum hvítlauksrifjum. Bætið kjúklingnum út í, saltið og piprið og steikið uns hann tekur lit. Gulrótum og papriku bætt út í og látið steikjast í smá stund. Kjúklingasoði bætt út í og suða látin koma upp (ef teningar eru notaðir, bæta þá vatni út í, láta suðuna koma upp og bæta svo teningunum út í og leysa þá upp). Veiðið fituna ofan af. Rífið eplið út í. Bætið tsk af salti við. Látið malla í 15-20 mínútur.
Þá er hafist handa við Curry roux. Bræðið smjörið í potti. Þegar það er alveg brætt, hrærið þá hveitinu saman við. Látið malla á lágum hita í 20-30 mínútur eða þar til skiptir um lit. Bætið kryddunum út í, hrærið vel saman, takið pottinn af hlóðum og setjið til hliðar.
Látið renna af kartöflunum, bætið þeim út í stóra pottinn og látið malla í 15 mínútur í viðbót, eða þar til kartöflurnar eru meyrar. Þá er karríblöndunni bætt út í á þennan hátt: Ausið soði í pottinn með karríinu, þynnið það og hrærið eftir þörfum þar til blandan rennur ljúflega. Hellið þá aftur saman við réttinn og hrærið vel. Bætið soyasósunni og chili tómatsósunni við. Látið malla þar til hæfilega þykkt, því lengur því betra
Berið fram með hrísgrjónum.