Brauð og bollur · Gerbakstur

Mjög fljótlegar morgunverðarbollur!

Fljótlegar morgunverðarbollur

Þegar kona heldur úti matarbloggi kemst hún ekki upp með að baka alltaf sömu uppskriftina aftur og aftur. Þess vegna er ég t.d. alltaf á höttunum eftir nýjum uppskriftum af morgunverðarbakkelsi og sá þessar ótrúlega fljótlegu brauðbollur á sænsku bloggi, virkuðu nú eiginlega of fljótlegar til að vera góðar 😀 Það þarf ekkert að hnoða og ekkert að kefla eða móta í höndum, bara hræra með sleif að kvöldi og fletja út með fingrum að morgni og setja í ofninn – einfaldara gæti það ekki verið. Svo frystast þær einstaklega vel, búið að vera notalegt að eiga dálítið af þeim í frystinum í fríinu og skella í ofninn að morgni 🙂 Athugið samt að þetta eru ekki svona dúnmjúkar bollur t.d. eins og kotasælubollurnar (nema að innan að sjálfsögðu), , skorpan á þeim er aðeins hörð (og góð!) – pínu eins og ciabatta-brauð!

Maðurinn minn er enginn sérstakur áhugamaður um bakstur (og hvað þá gerbakstur, hann hefur á tilfinningunni að þetta séu einhver ægileg vísindi held ég) en hann henti í þessar bollur í vikunni, fannst það ekkert mál og sagði að þetta hefði ekki tekið neina stund (úbbosí, hann hefði kannski betur ekki gert þessar bollur því núna veit ég að þetta var ótrúlega lítið mál fyrir hann og fer að ætlast til þess að fá nýbakað í tíma og ótíma 😉 )

Fljótlegar morgunverðarbollur

Mjög fljótlegar morgunverðarbollur

2,5 tsk þurrger (25 gr ferskt ger)
4 dl vatn
1 dl mjólk
1 msk hunang
1/2 tsk salt
570 gr hveiti
120 gr heilhveiti

Aðferð 

Að kvöldi: blandið saman mjólk og vatni. Stráið þurrgeri út í (eða myljið ferska gerið út í) og látið bíða í smástund (ef þið notið ferskt ger þarf það að hafa leysts alveg upp). Bætið salti og hunangi út í og hrærið. Bætið að lokum öllu hveitinu út í og hrærið vel með sleif (ekki í vél). Deigið á að vera svolítið klístrað. Hyljið skálina með t.d. plastfilmu eða viskastykki og setjið í kæli yfir nótt.

Að morgni: Stráið hveiti á borðið. Hellið deiginu á hveitið og teygið það til í ferhyrning sem er ca. 2 cm þykkur og skerið í 10 bita. Setjið bökunarpappír á tvær ofnskúffur og leggið bitana á þær.

Bakið við 225 gráður í 15 – 20 mínútur.

Deigið er teigt og toga með fingrunum í ferhyrning, 2 cm. þykkan
Deigið er teigt og togað með fingrunum í ferhyrning, 2 cm. þykkan
Ég skar deigið í 10 bita með pitaskera, eins og sjá má var nákvæmnin í algeru fyrirrúmi ;)
Ég skar deigið í 10 bita með pitsaskera og eins og sjá má var nákvæmnin í algeru fyrirrúmi 😉

 

2 athugasemdir á “Mjög fljótlegar morgunverðarbollur!

    1. Alveg pottþétt, getur prófað að nota bara 1 tsk af sykri í staðin t.d. Eða jafnvel bara sleppa sætunni, ég hef oft bakað brauð og bollur án nokkurs sykurs og þær lyfta sér allar vel 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s