Brauð og bollur

Pítubrauð

Pítubrauð
Ég get ekki sagt að ég hafi verið neinn sérstakur pítu-aðdáandi í gegnum árin og mér hafa aldrei fundist pítubrauðin sem maður kaupir tilbúin út í búð neitt sérstaklega góð. Einhvern tíman sagði frænka mín mér svo að hún bakaði sín pítubrauð yfirleitt sjálf og þá fannst mér auðvitað upplagt að prófa það. Þetta var eins og opinberun! Það er ekki hægt að líkja búðarkeyptum pítubrauðum og ferskum heimabökuðum pítubrauðum saman. Ég held hreinlega að ég hafi ekki splæst í þau tilbúnu síðan ég bakaði þau fyrst sjálf.

Uppskriftin sem fylgir með er úr Bonniers Kokbok og hefur reynst okkur mjög vel. Brauðin eru mjög einföld í bakstri en uppskriftin er aftur á móti stór, u.þ.b. 20 brauð, þannig að það er kannski ekki galið að minnka hana um helming a.m.k. ef maður er ekki með risafjölskyldu eða stóran frysti. Þau frystast aftur á móti afbragðsvel og ótrúlega þægtilegt að eiga inn í frysti ef maður vill reiða fram mjög fljótlega máltíð 🙂

Pítubrauð, 20 stk

2,5 tsk þurrger (eða 25 gr ferskt ger)
6 dl vatn
2 msk bragðdauf olía
2 tsk salt
Ca 16 dl hveiti (960 gr).

Blandið gerinu og saltinu saman við hveitið. Velgið vatnið og hellið því yfir hveitið ásamt olíunni. Hnoðið vel og látið svo hefa sig í skálinni í  60 – 90 mínútur undir viskastykki.

Stillið ofninn á 275 c. og setjið bökunarplötu inn (og látið hitna með ofninum). Setjið deigið á hveitistráð borð og hnoðið aðeins. Deilið í 20 jafnstóra bita og búið til bollur úr þeim. Látið bollurnar „hvíla sig“ undir viskastykki í 10 mínútur og takið þær síðan og fletjið út í 1 cm þykka, flata hringi.

Setjið brauðið beint á ósmurða, heita ofnplötu og bakið í 5 – 8 mínútur eða þar til brauðið fer að taka lit.

4 athugasemdir á “Pítubrauð

  1. Ein pæling. Þegar þú segir „keypt pítubrauð“ ertu þá að meina ófrosin? Er bara að velta fyrir mér hvort þessi séu mikið betri en Hatting brauðin, mér finnst þau nefnilega alveg eins í útliti 🙂 Ég kaupi þau alltaf og finnst þau reyndar góð. Hinsvegar finnst mér öll „fersk“ (ekki fryst) pítubrauð ógeðslega vond og myndi aldrei kaupa þau 😦

    1. Mér fannst „mín“ betri en Hatting en það er reyndar orðið svo langt síðan að ég hef keypt þau að ég ætti kannski ekki að vera tjá mig um það? Ég held m.a.s. að þau fáist ekki hérna úti svona fersk/frosin – ég hef bara séð svona gúmmibrauð í hillunum hérna.

  2. Hvernig býrðu til holrýmið innan í, bara þegar þau eru tilbúin, skerðu þá bara m. hníf inní? Teygjast þau ágætlega? Kemst slatti af dóti inn í þau?

    1. Holrýmið myndast við baksturinn, þau blása upp á meðan á bakstrinum stendur 🙂 Stundum vantar aðeins upp á það og þá sker ég bara aðeins með hníf til að hjálpa til þegar ég er að fara borða brauðið. Það kemst heill hellingur inn í þau – það fer þó auðvitað aðeins eftir því hversu stór maður gerir þau 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s