Tengdapabbi býr fyrir vestan, nánar til tekið í Hnífsdal. Þegar við fjölskyldan höfum farið að heimsækja hann og fjölskylduna hans þá hefur þessi rabarbarabaka oft verið borin á borð. Ég á ekki til nógu góð lýsingarorð til að lýsa þessari sælu 🙂 Því er kannski best lýst með því að segja frá því að oftar en ekki sit ég og borða nánast uppúr forminu þegar allir hinir eru búnir að fá nóg, ég get bara ekki hamið mig. Þessi uppskrift kemur frá tengdamömmu hans tengdapabba (en hún býr líka í Hnífsdal) og verður hún því hér með nefnd Rabarbarabaka úr Hnífsdal.
Rabarbarabaka úr Hnífsdal
Fylling
400 gr rabarbari
½ dl hveiti,
2 egg,
2 ½ dl sykur,
Mylsna
1 ¾ dl hveiti,
1 ½ dl púðursykur,
50 gr smjör
Hitið í ofninn 200°c
Til þess að gera fyllinguna er best að byrja á því að skera niður rabarbarann í ca 2 cm langa bita. Hrærið saman hveiti, sykri og eggjum. Blandið rabarbaranum saman við deigið og setjið í smurt eldfast mót (ca 24 cm í þvermál).
Næst er mylsnan gerð með því að mylja saman púðursykur, hveiti og smjör og er því svo dreift yfir rabarbarafyllinguna.
Baka í u.þ.b 45 mín
Best volgt með rjóma eða ís.
Ef maður er sérstaklega mikill sælkeri þá er líka gott að setja smá súkkulaði með í mylsnuna 😉
2 athugasemdir á “Rabarbarabaka úr Hnífsdal”