Ok, ég ætla að vera alveg heiðarleg. Ég bakaði þessi köku fyrir mörgum mánuðum síðan. Ég sá hana á einhverjum af mínum óteljandi matarblogg-rúntum og varð alveg sjúk. En svo fannst mér hún bara ekkert heppnast nógu vel þegar ég bakaði hana og það pirraði mig alveg fáránlega mikið. Binna fannst þetta hins vegar einhver besta kaka sem ég hef bakað og borðaði hana upp til agna á ekki svo löngum tíma (með dyggri hjálp frá öllum heimilismeðlimum, hvað sem öllum pirring hjá mér leið 😉 ) Ég held að ástæðan fyrir feilinu hafi verið formið sem ég bakaði hana í – ég keypti ódýrt bundköku-form og það var ekki að gera sig, það var of lítið og þröngt og þ.a.l. ekki alveg nóg pláss fyrir fyllinguna sem rann út í hliðarnar og það pirraði mig óstjórnlega!
Allavega, hér fáiði uppskriftina sem sló svona hressilega í gegn hjá eiginmanninum 🙂
Eplakaka með rjómaostsfyllingu og karamellupekankremi
Rjómaostsfylling
225 gr. rjómaostur, mjúkur
60 gr. smjör, mjúkt
100 gr. sykur
1 egg
2 msk hveiti
1/2 tsk vanilludropar
Deig
2,5 dl pekanhnetur eða valhnetur (má sleppa)
390 gr hveiti
200 gr sykur (ég notaði 100 gr.)
200 gr púðursykur (ég notaði 100 gr.)
2 tsk kanill
1 tsk salt
1 tsk matarsódi
1/2 tsk múskat
1/2 tsk allrahanda (ég sleppti því)
3 stór egg, slegin í sundur
1.9 dl sólbómaolía (eða önnur bragðlítil olía)
1.9 dl eplamauk
1/2 tsk vanilludropar
4 – 5 lítil epli, skræld og skorin í bita (eða rifin með rifjárni)
Karamellupekankrem
100 gr. púðursykur
60 gr. smjör
3 msk mjólk
1/2 tsk vanilludropar
2,5 dl flórsykur
2,5 dl pekanhnetur/valhnetur (má sleppa)
Hitið ofninn í 175 gr. c.
Fylling
Hrærið rjómaost, smjör og sykur saman í hrærivél. Bætið eggjum, hveiti og vanillu út í hrærið þar til blandað saman. Setjið til hliðar.
Deig
Ristið hneturnar á ofnskúffu í 8 – 10 míntur eða þar til þær eru farnar að ilma. Snúið einu sinni á meðan á ristuninni stendur.
Hrærið saman hveiti, sykur, púðursykur og kryddin í stórri skál. Hrærið eggjunum, sólblómaolíunni, eplamaukinu og vanilludropunum út í. Hrærið þangað til þetta er rétt blandað saman (má alveg sjást smá hveiti, ekki hræra of mikið). Hrærið eplunum og hnetunum út í.
Setjið 2/3 af deiginu í bundt-formið og setjið rjómaostsfyllinguna ofan á það. Setjið fyllinguna í miðjuna á deiginu, allan hringinn og hafið góðan kant sitt hvoru megin við fyllinguna. Notið hníf til að „skera“ fyllinguna í deigið (skerið ofan í fyllinguna og eftir deiginu endilöngu) Setjið restina af deiginu yfir.
Bakið í 60 – 75 mínútur eða þar til pinni kemur hreinn upp úr kökunni. Kælið kökuna alveg.
Krem
Setjið púðurusykurinn, smjörið og mjólkina í lítinn pott og bræðið yfir lágum hitta, hrærið stöðugt í. Látið suðuna koma upp og sjóðið í 1 mínútu. Fjarlægið af hitanum og setjið vanilludropana út í. Setjið flórsykurinn út í í nokkrum skömmtum og hrærið vel í á milli í ca. 3 mínútur eða þar til blandan er farin að kólna og þykkna aðeins. Hellið strax yfir kökuna (annars verður kremið of þykkt og erfitt að hella því á). Skreytið með pekanhnetum.