Gerbakstur

Snúðarnir hennar Pioneer Woman (eða þegar Stína bakaði risasnúða).

Kanilsnúðar Pioneer Woman

Ég á mér tvær uppáhálds snúðauppskriftir, uppskriftina hennar Unni frá Noregi og svo uppskriftina frá Pioneer Woman (sem mér skilst að sé nú ekkert „hennar“ en það er nú önnur og mikið lengri saga 😉 ) . Ég er búin að baka Pioneer uppskriftina mjööööög oft og hún slær alltaf í gegn, fyrir mér er það kremið sem gerir útslagið og toppar t.d. algerlega cinnabon hvíta kremið.

Strákarnir voru búnir að biðja mig margoft um að baka snúða upp á síðkastið (þessi börn eru orðin fullgóðu vön) en ég aftur á móti þykist eitthvað vera að huga að sykurinntökunni þannig að ég hummaði það fram af mér. Í gær var hins vegar ekki vikist undan þessu lengur, sportlov að byrja í Stokkhólmi og mikil stemning í drengjunum. Ég skellti því í snúðana meðan ég nagaði nokkrar gulrætur. Af því að ég var nú ekki beinlínis að baka snúðana fyrir sjálfa mig (eigum við að ræða eitthvað sjálfsstjórnina hérna?) þá ákvað ég að gera eins og pioneer woman gerir alltaf á blogginu sínu og fletja deigið bara allt út í einu stykki (í staðin fyrir að skipta deiginu upp í 2 – 3 hluta eins og ég geri vanalega).

Því hefði ég betur sleppt.  Svæðið sem ég flatti deigið út á var allt of lítið og í staðin fyrir að endurtaka leikinn á heppilegra svæði náði letin fullkomlega yfirhöndinni og ég ákvað að láta deigið bara vera eins og það var, ótrúlega þykkt. Snúðarnir urðu þ.a.l. fáránlega þykkir og stórir – nánast á við bakaríssnúða frá Íslandi! Þeir reyndar smökkuðust ekki ver fyrir vikið en ég held að þetta verði í fyrsta og eini skiptið sem synir mínir kvarta um seddu eftir „einungis“ tvo nýbakað snúða… Fyrir nú utan það að þeir urðu svona frekar mikið ólögulegir (þ.e. þeir sem fóru ekki í snúðaköku).

Ath – varðandi uppskriftina
Pioneer woman er drottning smjörs og sykurs og ég nota aldrei jafn mikið af því í fyllinguna og hún gerir, nota sennilega ca. helminginn á við hana. Það er þó sjálfsagt ef þið viljið extra-djúsí snúða að fara alla leið, a.m.k. svona einu sinni. Eins geri ég ekki svona rosalega mikið af kremi. Ég geri oftast ca. helminginn og hef restina af snúðunum sem ég set gjarnan í frysti kremlausa (og baka þá líka helminginn á ofnplötu en ekki sem „köku“). Ef þið ætlið að gera snúðaköku verðið þið líka að raða snúðum sæmilega þétt í formin en þó ekki of þétt.

Snúðarnir hennar PIoneer Woman

Snúðarnir hennar Pioneer Woman

Fyrir deig
1 líter mjólk
2,5 dl matarolía (ekki ólívu)
200 g sykur
4,5 tsk þurrger eða 50 gr ferskt ger
1 kg hveiti (+ 130 gr fyrir seinni not)
1 rífleg tsk lyftiduft
1 tæp tsk matarsódi
1 tsk salt

Fyrir fyllingu
225 gr smjör
400 gr sykur
Kanill að vild

Krem
1 kg flórsykur
Hlynsíróp, nokkrar msk. (sjá leiðbeiningar).
1,25 dl mjólk
0.75 dl bráðið smjör
0.75 dl lagað kaffi
Salt á hnífsoddi

Hitið mjólkina, olíuna og sykurinn að suðu í stórum potti. Takið af hitanum og leyfið kólna þar til volgt. Stráið þurrgerinu yfir og látið standa í 1 – 2 mínútur. Bætið 1 kg af hveiti út í og hrærið vel (með sleif t.d.). Setjið viskastykki yfir og látið hefa sig í ca. 1 klst (eða þar til búið að tvöfalda sig).

Stráið lyftidufti, matarsóda og salti yfir deigið og svo 130 gr. af hveiti. Hrærið öllu saman og setjið svo á hveitistráð borð og hnoðið mjög létt. Skiptið deiginu í tvo helmgina og fletjið út á hveitistráðu borði (ef deigið er mjög blautt notið þá meira hveiti og öfugt). . Penslið hvorn helming með helmingnum af smjörinu sykrinum og kanil. Rúllið upp og skerið niður í snúða. Látið í vel smurt form ( eða á plötu klædda með bökunarpappír – t.d. í eldfast mót ef þið viljið búa til snúðaköku og látið hefa sig í ca. 30 mín.

Bakið við 190 gr. í 13 – 17 mínútur.

Á meðan snúðarnir bakast búið þá til fyllinguna með því að blanda öllum hráefnum saman. Á Íslandi er ekki til hlynsírópsbragðefni eins og pioneer woman notar þannig að ég hef yfirleitt helt ca. 3 msk hlynsírópi í kremið og minnkað magnið af mjólk á móti. Hellt yfir snúðana meðan þeir eru heitir (mér finnst það aaafar mikilvægt því þá fer kremið betur inn í þá 😉 )

3 athugasemdir á “Snúðarnir hennar Pioneer Woman (eða þegar Stína bakaði risasnúða).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s