Fyrstu eplakökuna mína bakaði ég einhvern tíman þegar ég var unglingur. Ég fann uppskrift í einhverjum uppskriftapésa frá MS sem kallaðist „fljótleg eplakaka“ sem greip athygli mína. Ég veit eiginlega ekki hverjum dettur í hug að kalla eplaköku (hvernig sem uppskriftin svosem er) fljótlega. Það er EKKERT fljótlegt við að flysja, kjarnhreinsa og skera niður fullt af eplum. Eins góðar og mér finnst þær þá finnst mér yfirleitt alveg hrikalega tímafrekt að búa þær til út af þessu. (Þá er reyndar tilvalið að láta ektamanninn í þetta hlutverk 😉 )
Allavega, ég man líka eftir því að hafa fundist það mjög skrítið að það væri ostur í teppinu ofan á kökunni en sökum þess hversu fljótleg uppskriftin átti að vera lét mig hafa það. Það er skemmst frá því að segja að allar götur síðan ég bakaði þessa uppskrift fyrst hefur þetta verið uppáhálds eplakakan mín! Þegar ég og Binni kynntumst bakaði ég hana fyrir hann og þetta er sú kaka sem hann biður mig oftast um að baka (hann er reyndar forfallinn eplakökuaðdáandi). Osturinn er ekkert áberandi í kökunni, ljáir henni bara smá svona „ég veit ekki alveg hvað er í kökunni“-blæ.
Þegar ég bakaði epla-cheddar skonsurnar um daginn fór ég reyndar að lesa mér til um þessa samsetningu og komst að því að það er einmitt til eplapæ í Bandaríkjunum sem er með þessu kombói og er víst mjög vinsælt. Þannig að þetta er kannski ekki alveg eins orginal og skrítið og ég hélt upphaflega 🙂
Eplakaka með osti
Eplafylling:
4 – 5 stk epli
200 g sykur
35 g hveiti
1/4 tsk kanill
Ofan á kökuna:
140 g hveiti
50 g sykur
1,5 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
150 g ostur, 26 % rifinn
65 g smjör, brætt
1/4 bolli mjólk

Eplin eru afhýdd, kjarninn hreinsaður úr og skorin í bita. Sykri, hveiti og kanil er blandað saman og svo blandað saman við eplin. Þetta er sett í smurt, eldfast mót.
Hveiti, sykri, lyftidufti, salti og osti er blandað saman. Smjöri og mjólk er blandað saman við. Sett yfir eplablönduna (þetta verður klístrað og blautt, ég tek alltaf litla búta og flet yfir í lófanum og legg þetta í bútum yfir eplin).
Bakað í ca. 30 mínútur við 200 gr.
Ein athugasemd á “Eplakaka með osti (uppáhálds eplakakan mín!)”