Kökur

Oreó-súkkulaðikaka

IMG_6453

Ég er sennilega latasti bakari í heimi. Mér finnst svakalega gaman að baka og enn betra að borða það sem ég baka. Aftur á móti nenni ég sjaldnast að hafa mjög mikið fyrir bakstri og flóknar og langar uppskriftir fæla mig yfirleitt frá því að reyna. En stundum þá bara verður maður. Og þá er nú gott að hafa þá afsökun að maður sé að fá vini í sunnudagskaffi og geta þannig þóst hafa rosalega góða ástæðu fyrir því að baka fjögurra hæða, fáránlega góða súkkulaðiköku. Þið vitið, svona súkkulaðiköku með 5 kg af smjöri og heilum eggjabakka… eða svona næstum því 😉

Ég held að nafnið á kökunni vísi í vanillusmjörkremið á milli laganna á henni, það eru engar oreó-kökur í deiginu. Og ég er enginn sérstakur oreókökufíkill þó það mætti kannski halda það (þetta er þriðja uppskriftin sem inniheldur þetta annars ágæta kex sem ég set inn á stuttum tíma).

Kakan er ekki flókin en hún er tímafrek og ég myndi mæla með því að baka botnana deginum áður en maður býr til kremin og setur hana saman. Mér fannst hún samt alveg þess virði – þvílíkt nammi 🙂

Ef þið eigið í jafn miklum erfiðleikum með að setja smjörkrem á kökubotna eins og ég, án þess að tæta allan botninn upp, þá finnst mér rosalega sniðugt að dýfa hnífi í heitt vatn á milli þess sem maður smyr kreminu á með honum.

IMG_6472

Oreó-súkkulaðikaka

Tertubotnar
4 dl sykur
4,5 dl hveiti
1,5 dl kakó
3 tsk lyftiduft
3 egg
2,5 dl mjólk
1,5 dl brætt smjör
1 dl kalt (sterkt) kaffi

Vanillusmjörkrem
400 gr mjúkt smjör
3 dl flórsykur
6 eggjarauður (geymið hvíturnar og búið til t.d. marengs úr þeim 😉 )
1 tsk vanillusykur

Súkkulaðikrem
400 gr rjómaostur
1 dl kakó
1,5 dl flórsykur
60 gr mjúkt smjör

Súkkulaði ganache
3 dl rjómi
200 gr dökkt súkkulaði

Oreokex til skreytingar (ef vill)

Aðferð

Ofninn settur á 175 gr. Tvö springform  smurð (líka hægt að nota eitt tvisvar sinnum). Blandið öllum þurrefnunum saman í stóra skál. Eggjum og mjólk blandað vel saman með písk. Eggjahrærunni blandað vel saman við þurrefnin ásamt smjörinu og kaffinu þangað til deigið er slétt. Deiginu skipt jafnt milli formanna og bakað í ca. 35 – 40 mínútur eða þar til prjónn sem stungið er í deigið kemur hreinn upp. Látið kólna alveg áður en hvorri köku er skipt í tvennt.

Vanillusmjörkrem.
Smjör og flórsykur þeytt vel saman (í hrærivél eða með handþeytara). Hrært áfram meðan ein eggjarauða er sett út í í einu, skafið hliðarnar á skálinni af og til. Vanillusykrinum bætt út í og hrært vel. Lagt til hliðar.

Súkkulaðikrem
Rjómaostur, kakó og flórsykur þeytt vel saman. Smjörinu bætt út í og hrært þar til allt er vel blandað saman. Passið að skafa hliðarnar á skálinni af og til.

Súkkulaði-ganache
Hitið rjómann alveg að suðu. Saxið súkkulaðið og bætið út í rjómann og hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. Látið kólna

Tertan sett saman
Setjið vanillusmjörkrem ofan á fyrsta botninn, súkkulaðikrem á annan botninn, svo vanillusmjörkrem á þriðja og að lokum súkkulaðikrem ofan á tertuna. Setjið kökuna nú  í kæli í ca. klst. Hellið að lokuð súkkulaði-ganachinum ofan á kökuna (alls ekki hafa hann heitan!) og setjið jafnvel oreosmákökur ofan á kökuna sem skreytingu.

IMG_6481

Ein athugasemd á “Oreó-súkkulaðikaka

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s