Ég veit ekki hvað ég hef skoðað margar girnilegar bandarískar mataruppskriftir þar sem aðalhráefnið er ítölsk pylsa eða „italian sausage“. Ég lagðist þ.a.l. í smá gúggl um daginn og sá að vinotek.is er búið að taka af mér ómakið og birta uppskrift að svona pylsu hjá sér. Yfirleitt á hvort eð er að losa þessa pylsur úr hulsunni og steikja eins og hakk þannig að í sjálfu sér á ekki að vera neitt mál að blanda kryddunum í svínahakk til að fá útkomu sem er nokkurn vegin sambærileg við það sem maður myndi kaupa út í búð í Ameríku.
Allavega – ég er búin að rekast nokkrum sinnum á uppskrift að svokallaðri Lasagna-súpu á ýmsum amerískum bloggum. Í uppskriftinni er akkúrat fyrrnefnd pylsa og mér fannst tilvalið að prófa vínótek uppskriftina meðfram súpuuppskriftinni. Nú get ég auðvitað ekki sagt til um hvernig súpan hefði smakkast með „alvöru“ ítalskri pylsu (örugglega vel ímynda ég mér) en vá hvað hún var góð með svínahakkblöndunni sem ég bjó til heima. NAMM! Þessi fer klárlega í reglulegt kvöldmatar-rotation á heimilinu 🙂 Maður ætti kannski að kalla súpuna „hvítlaukssúpuna“ miklu, það er varla að maður leggi í að telja öll rifin sem fóru í hana. Það finnst samt ekki á súpunni verð ég að segja. Næst þegar ég geri lasagna mun ég svo klárlega notast við þessa svínahakkuppskrift til helminga við nautahakkið.
Ég mallaði súpuna í slow-cookernum okkar en uppskriftin miðast samt sem áður við að maður sjóði hana í venjulegum potti. Fyrir ykkur sem eigið slow-cooker er nóta neðst um hvernig ég gerði það.
Það er mælt með því að maður noti ricotta ost út á súpuna sem við gerðum (ásamt smá mozarella osti) en ég veit svosem ekki hvort slíkur ostur liggur á lausu heima né hvort hann kostar hálft nýra og einn handlegg þannig að ég myndi nú jafnvel bara nota þann ost sem hendinni er næstur. Það var samt mjög gott að nota ricotta ostinn þannig að ef þið eigið hann til 😉
Lasagna-súpa
Krydduð ítölsk pylsa
800 g svínahakk
4-5 hvítlauksgeirar
3 tsk salt
3-4 matskeiðar fennel-krydd
klípa af cayenne-pipar
1 msk þurrkaður rauður chili-pipar
2 dl vatn
Ég blandaði þessu öllu saman í skál áður en ég steikti þetta á pönnu en sennilega skiptir það litlu máli þegar upp er staðið.
Súpan
2 msk ólívuolía.
800 gr ítölsk pylsa
2 laukar, skornir smátt
5 hvítlauksrif, marin
2 tsk þurrkað oreganó
2 msk tómatpúrra
800 ml tómatar í dós (ekki heilir, annað hvort alveg maukaðir eða í teningum)
2 lárviðarlauf (veiðið þau upp úr áður en þið berið súpuna fram)
1,5 L vatn
2 teningar kjúklingakraftur
1 teningur nautakraftur
250 gr þurrt pasta, t.d. skrúfur
Basilikukrydd
Salt og pipar að vild
Ostur, t.d. ricottaostur og mozarella til að setja ofan á súpuna eftir að hún er borin fram
Hitið olíuna á pönnu. Setjið svínahakkið (ásamt kryddi) á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur. Bætið lauknum við og steikið þar til hann er glær. Bætið hvítlauk, oreganó og tómatpúrru við. Steikið í nokkrar mínútur. Setjið í pott og bætið við tómötum, lárviðarlaufi, vatni og kraft-teningunum. Hrærið til að blanda saman. Látið ná suðu og lækkið þá undir og látið malla í pottinum í 20 – 30 mínútur. Bætið þá pastanu við og sjóðið þar til pastað er tilbúið. Saltið og piprið að vild. Berið fram með osti og t.d. hvítlauksbrauði.
*Í bandarísku uppskriftinni er (eins og svo oft) gert ráð fyrir að notaður sé dutch oven eða járnpottur frá byrjun. Ég mæli nú bara með því að nota fyrst pönnu og svo pott ef þið eigið ekki svoleiðis dýrindis-pott.
**Ég notaði slow cookerinn minn, þ.e. eftir að ég var búin að steikja svínahakkið og bæta kryddunum við þá hellti ég öllu saman í slow cookerinn og bætti við restinni. Lét þetta svo malla á „high“ í 5 tíma áður en ég setti pastað út í.
***Ég fékk tips frá lesanda um það að sennilega er þessi súpa ekki fyrir þá sem ekki finnst hvítlaukur góður. Hún prófaði að gera hana og sleppti bæði lauknum og hvítlauknum (sem er næstum heill haus af hvítlauk) og fennel bragðið varð algerlega yfirgnæfandi sem er ekki málið. Ég mæli þannig ekki með henni ef þið ætlið að sleppa öllum hinum kryddunum fyrir utan fennel 🙂