
Það er við hæfi að baka uppskriftir sem eru að því er virðist upprunar hérna í Svíþjóð. Þessi kaka er kölluð Silvíu kaka afþví að Silvía Svíadrottning er víst mjög hrifin af henni 🙂 Þessi kaka er fullkomin til að skella í form þegar gesti ber óvænt að garði, hún er fljótleg og súper einföld (svo ekki sé minnst á góð!)
Silvíu kaka
3 egg
3 dl sykur
1.5 dl vatn
3 dl hveiti
3 tsk lyftiduft
Sykur og egg þeytt saman, vatni þeytt saman við stuttlega, svo er hveiti og lyftidufti bætt við. Hellt í 2 kringlótt smurð mót eða smurða ofnskúffu. Bakað í 30 min ef notuð eru kringlótt mót en 15 min ef notuð er ofnskúffa, á 175°c eða þar til prjónn kemur þurr uppúr deginu.
Upprunalega uppskriftin gerir ráð fyrir að settur sé glassúr ofan á botninn og svo kókosmjöl þar ofaná. Ég er búin að prufa það og get alveg mælt með því 🙂
Glassúr
150 gr smjör
1.5 dl sykur (eða flórsykur)
3 tsk vanillusykur
2 eggjarauður
kókosmjöl
Á meðan botninn bakast er fínt að gera glassúrinn. Smjör brætt við lítinn hita. Sykri, vanillusykri, eggjarauðum hrært saman við smjörið. Glassúrnum hellt ofan á kökuna þegar hún er tilbúin og kókos stráð yfir.
Botninn er mjög „flöffí“ og bragðgóður, ég gerði annan eins daginn eftir að ég prufaði uppskriftina og langaði mig þá til að setja eitthvað annað ofaná. Ég endaði á því að sneiða niður banana, hellti heimagerðri karamellu yfir og smurði að lokum þeyttum rjóma ofan á.

var að rekast á þessa síðu, já sæll ég sé að hér á ég eftir að gramsa í öllum hillum fllott síða.