Ég hef örugglega sagt söguna af því hér áður þegar ég var vonlaus gerbakari – það misheppnaðist bókstaflega allt sem gat misheppnast þegar ger kom á e-n hátt við sögu hjá mér. Á endanum var þetta farið að fara svo í taugarnar á mér að ég ákvað hreinlega að ná tökum á gerbaksturslistinni og í dag finnst mér fátt skemmtilegra en að baka með geri – og þá eru allskonar brauð ofarlega á listanum. Mér finnst alveg sérlega gaman að prófa nýjar brauðuppskriftir til að bera fram með súpum (við erum afar mikið súpufólk á þessu heimili, börnin ekkert síður en foreldrarnir þó að undarlegt megi hljóma).
Þessi pestó-osta-snúðauppskrift olli engum vonbrigðum og annar strákanna sagði við mig að ég ætti alltaf að baka svona brauð með súpum, honum fannst þetta svo gott (að vísu var hann glorsoltinn eftir langan dag í fótbolta og hefði sennilega borðað hvað sem ég hefði borið á borð fyrir hann en ég kýs að líta fram hjá þeirri staðreynd 😉 )
Pestó- og ostasnúðar
U.þ.b. 16 snúðar
25 gr ferskt ger/ 6 gr þurrger
2,5 dl mjólk, ylvolg
1 tsk salt
25 gr smjör, við stofuhita
6 – 7 dl hveiti
Fylling
100 – 125 gr pesto
Ca. 200 gr rifinn ostur
Til skrauts
Egg, slegið í sundur
25 gr furuhnetur
Aðferð
Myljið ferska gerið í mjólkina og blandið vel saman (eða blandið þurrgerinu beint út í hveitið). Blandið mjólkinni út í hveitið ásamt smjörinu og saltinu. Hnoðið vel saman. Látið deigið hefa sig undir viskastykki í ca. 30 – 45 mínútur eða þar til deigið hefur tvöfaldast.
Fletjið deigið út í ferhyrning, ca. ¾ – 1 cm þykkan (eins og þegar maður gerir snúða). Smyrjið pestóinu á deigið og stráið ostinum yfir. Rúllið deiginu upp og skerið svo í sneiðar, ca. 2 cm þykkar.
Raðið snúðunum á ofnplötu með bökunarpappír, penslið egginu á snúðana og stráið furuhnetunum yfir. Látið hefast í ca. 30 mínútur og stillið ofninn á 200°c.
Bakið snúðana í 7 – 9 mínútur eða þar til gullinbrúnir.