Ég fór í búð um daginn og alveg óvart duttu 4 pokar af mismunandi súkkulaði og karamellu ofan í innkaupakerruna. Ég náði að hemja mig í tæpan sólahring þar til ég varð að prufa að baka úr þessum nýjungum. Butterscotch er eitthvað sem ég er búin að sjá í milljón sinnum í amerískum uppskriftum. Ég var ekki svikin af þessum smákökum. Þær eru sjúklega góðar! Ég fór með nokkrar í vinnuna og þær hurfu á augabragði 🙂 Ef þið finnið ekki butterscotch í næstu verslun þá er alveg þess virði að skipta því út fyrir dökkt súkkulaði.
Butterscotch hafrasmákökur með hvítu súkkulaði
170 gr mjúkt smjör
155 gr sykur
165 gr púðursykur
2 egg
2 tsk vanilludropar
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
1/2 tsk kanill
160 gr hveiti
255 gr hafrar
150 gr hvítt súkkulaði
150 gr butterscotch karamella
Kveikið á ofninum í 190°c
Þeytið smjörið þangað til það verður ljóst og létt, bætið sykrinum og púðursykrinum saman við í nokkrum skömmtum og þeytið vel á milli. Bætið eggjum og vanilludropum saman við og þeytið.
Hrærið saman hveiti, lyftidufti, salti, og kanill. Blandið hveitinu saman við smjörið og hrærið vel saman. Hrærið höfrunum, súkkulaðinu og butterscotch karamellunni saman við deigið.
Setjið degið í 10-15 min í ísskáp.
Mótið kúlur úr deiginu, raðið á ofnplötu og bakið í 8-12 mín (fer eftir stærð), þar til endarnir eru smá gylltir.