Ég ELSKA líbanskan mat. Ég veit í alvöru ekkert betra og fer eins og oft og ég get á líbanskt veitingahús hér í borg þar sem hægt er að fá 16 smárétti (fyrir þá sem eiga leið um Stokkhólm þá heitir veitingahúsið Tabbouli – ég mæli þvílíkt með því!).
Binni gaf mér fyrir mörgum árum bók sem heitir Arabesque en hún hefur að geyma uppskriftir frá Marokkó, Tyrklandi og Líbanon. Bókin lá af e-m ástæðum upp í hillu óhreifð mjög lengi en svo vorum við að fá matargesti og þá fékk ég þá hugmynd að draga fram bókina góðu. Ég og eiginmaðurinn misstum okkur gjörsamlega, ég held við höfum búið til einhverja átta smárétti upp úr henni sem við bárum svo fram með íslensku lambakjöti sem var steikt á marokkóska vísu – ég held þetta sé uppáháldsmaturinn minn sem við höfum boðið matargestum upp á.
Magnið af hvítlauk og sítrónum sem fór í matargerðina var rosalegt – ég andaði hvítlauk í nokkra daga á eftir. Því var ekki síst fyrir að þakka Toum-sósunni sem er eitthvað það rosalegasta sem ég hef á ævinni komist í, mér finnst hún svo sjúklega góð að ég get hæglega borðað hana með skeið (sem er álíka sniðugt og að borða majónes með skeið, semsagt u.þ.b. ekkert sniðugt). Þetta er líbönsk hvítlaukssósa sem er góð út á ALLT (finnst mér allavega, sennilega eitthvað misjafnar skoðanir um það 😛 )
Ég ætla að gefa tvær uppskriftir úr bókinni hér á eftir, skv. því sem ég hef lesið á þessi bók að vera ein sú besta sem gefin hefur verið út um miðausturlenska matargerð og ég get allavega staðfest það að engin uppskrift sem við höfum prófað úr henni hefur misheppnast. Toum-uppskriftina fann ég svo á netinu.
Ég ber sósurnar vanalega fram sem forrétti, annað hvort með líbönsku brauð (sem fæst í Svíþjóð) eða pítubrauðu (sem ég hef þá skorið niður í smærri bita). Það má líka bera þetta fram sem sósur með einhverjum aðalrétt, t.d. með lambalæri eins og við gerðum.
Hummus
1 dós kjúklingabaunir
3 – 4 msk tahini
Safi úr tveimur sítrónum
3 hvítlauksgeirar
salt
4 msk góð ólífuolía
Setjið kjúklingabaunirnar í matvinnsluvél og maukið alveg. Bætið öllum hráefnunum út í, nema olíunni og blandið þar til þetta er orðið að mjúku mauku. Smakkið til og bætið við kryddum eftir þörfum. Setjið í skál og setjið olíuna út á.
Ef vill má strá hakkaðri persilju yfir eða paprikudufti (nema hvoru tveggja sé).
Osta- og jógúrtídýfa.
250 gr fetaostur
250 gr grísk jógúrt
4 msk góð ólífuolía
Merjið fetaostinn með gaffli og blandið saman við jógúrtina og blandið vel saman. Setjið ídýfuna á grunnan disk og dreifið olíunni yfir.
Toum – líbönsk hvílauksídýfa
Besta hvítlaukssósa í heimi: Toum
ATH: Þessi sósa er smá trikkí, ekki flókin en hún á það til að skilja sig og misheppnast. Hún er samt svo sjúklega góð að það er vel þess virði að láta á hana reyna 🙂
6 – 8 hvítlauksgeirar
1 tsk salt
1 eggjahvíta
1 tsk vatn
1 tsk sítrónusafi
250 ml bragðlítil olía (t.d. sólblómaolía)
Setjið hvítlaukinn og saltið í háu skálina sem fylgir með töfrasprotanum. Maukið með sprotanum. Bætið öllum hráefnunum út í og látið standa í ca. 15 sekúndur.
Setjið töfrasprotann aftur út í skálina, alveg niður á botn og kveikið á honum. Mixtúran mun nú byrja að þykkna (emulsify) frá botninum og upp á við. Þegar ca. 2/3 af mixtúrunni hefur þykknað, byrjið þá að lyfta töfrasprotanum hægt upp úr skálinni. Þegar töfrasprotinn er kominn upp úr sósunni á hún að vera orðin “flöffí” og tilbúin.
(Ef ekki hefur eitthvað farið úrskeiðis, oft er hægt að nota hluta af henni en stundum skilur hún sig alveg og þá verður að byrja upp á nýtt með nýjum hráefnum).