Við fjölskyldan skelltum okkur í stutta ferjusiglingu til Finnlands núna í vetrarleyfinu og áttum í gær nokkrar klukkustundir í þessari fallegu borg. Við komum svo aftur heim núna í morgun og vorum ansi þreytt, sum barnanna ákváðu nefnilega að fá hita í gærkveldi og það gerði það að verkum að svefninn í nótt var ekkert sérstaklega mikill. En hvað um það – ferðin var hin besta og allir voru afar ánægðir.
Mig langaði að prófa að baka eitthvað fljótlegt ofan í heimilismeðlimi núna í dag og Binni fann uppskrift að þessari sítrónuköku, sítrónur eru í alveg sérstöku uppáháldi hjá honum þó þess sjái ekki endilega stað í uppskriftunum sem ég er vön að baka. Ég bjóst ekki við neinu stórkostlegu, hún var aðallega einföld og fljótleg en kakan kom alveg sérstaklega skemmtilega á óvart því hún var alveg meiriháttar góð, ég mæli eindregið með henni ef ykkur langar að baka eitthvað ferskt og gott 🙂
Sítrónukaka
225 gr smjör
225 gr sykur
4 egg
Fínt rifinn börkur af einni sítrónu
225 gr hveiti
3,5 tsk lyftiduft
Sítrónubráð
Safi úr 1,5 sítrónu
85 gr sykur
Þeytið sykur og smjör þar til létt og ljóst. Bætið eggjunum út í, einu í einu og þeytið vel á milli, skafið niður hliðarnar með sleikju á milli. Bætið hveitinu, lyftiduftinu og berkinum af sítrónum út í og hrærið vel.
Smyrjið brauðform að innan, hellið deiginu í það og bakið við 180 c í 45 – 50 mínútur (fylgist vel með svo að kakan verði ekki of dökk eins og mín : ) Kakan er tilbúin þegar prjónn kemur hreinn upp úr henni.
Þegar kakan er komin úr ofninum hrærið þá saman sykrinum og sítrónusafanum. Stingið göt með prjóni eða gaffli á kökuna og hellið bráðinni yfir hana. Látið kökuna kólna áður en þið berið hana fram.