Pilaf eru réttir þar sem hrísgrjón eru soðin í krydduðu vatni. Hægt er að borða hrísgrjónin með kjöti, grænmeti og/eða þurkuðum ávöxtum.
Halli ákvað að taka þátt í Veganuary. Veganuary er þegar sneitt er hjá öllum dýraafurðum í janúar. Þessi réttur var sá eini sem ég eldaði sérstaklega til að elda eitthvað gott fyrir drenginn. Halli er vanur að taka upp allskonar áherslur í mataræðinu sínu og venjulega er ég ekki mikið að hlaupa á eftir því nema ég þurfi bara að gera smávægilega breytingar til að máltíðin henti honum líka.
Þar sem við búum á Sauðárkróki þá er ekki hlaupið að því að fá sveppi sem ekki kosta hálfan handlegg og eru ekki þessi hvítu, venjulegu sveppir sem allir þekkja. Einnig fékk ég ekki graslauk þennan dag en vikuna áður var ekkert nema graslaukur til í ferskkryddvörunum 🙂 Ég reddaði mér með smá blaðlauk í staðinn.
Hrísgrjóna- og sveppa Pilaf
1 msk olía
1 stór laukur, hakkaður
salt
pipar
2 bollar hrísgrjón
2 bollar grænmetis soð
2 msk olive olía
450 gr sveppir (niðurskornir)
1/3 bolli þurrt hvítvín
2 msk graslaukur
Steikið laukinn í potti þar til hann er orðinn mjúkur. Snöggsteikið hrísgrjónin (þau eru ósoðin) með lauknum. Hrærið vel í grjónunum allan timan eða í ca. hálfa mínútu. Hellið soðinu yfir hrísgrjónin og látið suðu koma upp. Setjið lokið á pottinn og lækkið undir grjónunum. Látið hrísgrjónin vera í ca. 15 min eða þar til grjónin eru búin að drekka í sig vatnið.
Hitið pönnu með olíu, steikið sveppina með salti og pipar. Þegar sveppirnir eru steiktir er hvítvíninu helt útá. Látið hvítvínið gufa upp að mestu.
Hrærið upp í hrísgrjónunum og blandið þeim saman við sveppina. Sáldrið niðurskornum graslauknum yfir grjóninn og njótið 🙂