Ég fékk matreiðslubók frá frægum sænskum matarbloggara, Lindu Lomelino, í kveðjugjöf frá gömlu vinnunni um daginn. Bókin er stútfull af girnilegum uppskriftum og þegar ég hnaut um þessa pavlovu-uppskrift í bókinni þá vissi ég að þetta yrði fyrsta uppskriftin sem ég myndi prófa úr þeirri bók – hún bókstaflega öskraði í mig.
Við fengum gesti um síðustu helgi og ég varð að nota tækifærið og baka þessa fáránlega girnilegu köku – smá maus vissulega en almáttugur hvað hún var góð. Þetta er einhver allra besta hnallþóra sem ég hef smakkað, hún var sæt og sölt og allt í einu. NAMM!
*ATH: ég sleppti pekanhnetunum, þar sem þær fengust ekki en það kom ekki að sök.
Súkkulaðipavlova með mascarponerjóma, kaffisúkkulaðisósu, daím, maltesers og pekahnetum
Marengsbotnar
50 gr dökkt súkkulaði (70%)
6 eggjahvítur
3 dl sykur
3 msk kakó
1 msk maízena-mjöl
1 tsk hvítvínsedik
Mascarponefylling
250 gr mascarponeostur (ef hann fæsti ekki má mögulega nota rjómaost í staðinn)
2 – 3 msk sykur
5 dl rjómi
2 msk espressokaffi eða sterkt kaffi
Kaffisúkkulaðisósa
3/4 dl sykur
1 dl espressokaffi eða sterkt kaffi
3 msk kakó
Til skrauts
50 gr hakkað Maltesers (eða Nóakropp)
50 gr hakkað Daim
50 gr hakkaðar pekanhnetur
*Súkkulaðimarengsbotnar*
Stillið ofninn á 175 gr. Sníðið til bökunarpappír fyrir eina ofnplötu. Teiknið tvo hringi, 15 cm í þvermál á sama pappírinn, hafið þá eins langt frá hvor öðrum og þið getið, án þess þó að þeir séu alveg upp við kantinn á pappírnum.
Hakkið súkkulaðið og bræðið. Látið kólna aðeins.
Þeytið eggjahvíturnar þar til þær eru farnar að freyða vel, bætið sykrinum út í, í nokkrum skömmtum og þeytið þar til orðið alveg stíft (á að vera hægt að snúa skálinni við án þess að deigið haggist).
Siktið kakóið og maízena yfir marengsdeigið. Bætið edikinu út í og blandið varlega saman. Hrærið súkkulaðinu út í með nokkrum handtökum.
Setjið deigið á hringina sem búið var að teikna upp á pappírnum (setjið pappírinn fyrst á plötuna). Setjið botnana í ofninn og lækkið hitann niður í 120 – 125 gr. Bakið í 75 – 105 mín, þangað til botnarnir eru harðir og “krispí” á kantinum en aðeins seigir í miðjunni. Slökkvið á ofninum, hafið ofnhurðina aðeins opna og látið botnanan kólna með ofninum.
*Mascarponefylling*
Þeytið mascarponeostinum og sykrinum saman. Hellið rjómanum út í og þeytið þar til fyllingin þykknar. Setjið kaffið út í að lokum og þeytið.
Kaffisúkkulaðisósa
Blandið öllum hráefnum í sósuna saman og látið suðuna koma upp. Sjóðið í 3 – 5 mínútur þangað til sósan hefur þykknað aðeins. Látið kólna.
*Kakan sett saman*
Setjið annan kökubotninn varlega á kökufat, breyðið helmingnum af mascarponefyllingu yfir, stráið maltesers, daimi og pekanhnetum yfir. Setjið hinn botninn yfir og restina af kreminu. Skreytið með maltesers, daím og pekanhnetum. Setjið sósuna yfir að lokum.