Ég held í alvöru að þetta sé eitthvað það besta brauð sem ég hef bakað á ævinni.
Uppskriftin lýsti því sem “lyxigt” sem mér fannst svona rétt hæfilega vemmilegt en eftir að við fjölskyldan hámuðum það í okkur með tómatsúpu á methraða þá held ég að ég neyðist til að taka undir þetta – þetta er dálítið svona lúxushversdagsbrauð. Þetta var hrikalega gott!
Ostabrauð
2,5 tsk þurrger
3 dl kalt vatn
Rifinn börkur af einni sítrónu
1 krukka ferskt timjan (eða eitt búnt?, krukka er kannski bara sænsk þýðing 🙂 )
1 dl smátt söxuð steinselja
2 msk ólívuolía
1 tsk salt
6,5 dl hveiti
Fylling
200 gr rifinn cheddarostur (eða annar ostur)
Saltflögur
Ólívuolía/smjör
Blandið þurrgerinu, sítrónuberkinum, kryddunum, saltinu og hveitinu saman. Bætið olíunni og vatninu út í og hnoðið vel, 5 – 10 mínútur í vél. Látið hefa sig í ca. 1 klst.
Fletjið deigið út, í rétthyrning – eins og þegar þið búið til snúða, ca. 30×40 cm. Stráið ostinum yfir og rúllið lengjunni upp. Skerið í 10 – 12 bita.
Smyrjið lausbotna form og raðið bitunum ofan í. Látið hefast í 30 mínútur. Stillið ofninn á 220 gr. Stráið flögusalti yfir brauðið og bakið svo í u.þ.b. 30 mín eða þar til fallega gullinbrúnt. Penslið með smjöri eða ólívuolíu áður en brauðið er borið fram.