Ó mig auma, ég eiginlega á bara ekki til lýsingarorð yfir það hvað þessi ostakaka er ljúffeng! Ég notaði tækifærið og bakaði hana þó svo að aðventan sé ekki komin þar sem örverpið átti 1 árs afmæli núna um helgina.
Þessi uppskrift er að mörgu leiti mjög svipuð ostakökunni hennar mömmu nema í þessari eru egg og hvítt súkkulaði. Það sem kom mér mest á óvart var að í lokin á uppskriftinni á maður að þeyta eggjahvítur og blanda saman við. Ég íhugaði að sleppa því, ég komst hinsvegar að þeirri niðurstöðu að ef maður prufar ekki eitthvað nýtt þá hjakkar maður bara í gamla farinu 😉 Tilgangurinn með þessu bloggi var nú einmitt að prufa nýjar uppskriftir og fara ótroðnar slóðir, ég sá sko ekki eftir því í þetta skiptið 🙂 Kakan er léttari í sér en margar ostakökur sem ég hef smakkað og tel ég að þeyttu ekkjahvíturnar eigi heiðurinn af því.
Piparköku-ostakaka með hvítu súkkulaði
Botn
250 gr piparkökur
80 gr smjör (bráðið)
Fylling
200 gr rjómaostur
3 eggjarauður
1 dl flórsykur
1 tsk vanillusykur
3 dl rjómi (þeyttur)
150 gr Hvítt súkkulaið (t.d. odense)
3 eggjahvítur
Skraut
piparkökur
Stillið ofninn á 200°c.
Myljið piparkökurnar og hrærið saman við bráðið smjörið. Festið bökunarpappír í botninn á lausbotna formi. Þrýstið mulningnum niður í formið og bakið í 7-9 min og látið kólna alveg.
Þeytið rjóman og bræðið súkkulaðið.
Hrærið saman rjómaostinum, eggjarauðunum, flórsykrinum, rjómanum og súkkulaðinu. Þeytið eggjavítunar þar til þær verða stífar og hrærið saman við fyllinguna.
Dreifið úr fyllingunni á botninn og frystið.
Takið kökuna út nokkrum tímum áður en það á að borða hana og skreitið með piparkökum.