Ég er aðeins farin að leyfa mér að prófa smá jóla/aðventu-bakstur þó að enn sé langt til jóla . Hér í Svíþjóð virðist önnur hver jólauppskrift vera með piparkökukryddum og kannski er ég bara búin að vera hérna of lengi en allt í einu hljóma allar þessar uppskriftir dásamlega girnilega í mín eyru 😀Þessa kladdkökuuppskrift fann ég í nýlegu jólauppskriftablaði Hemmets Journal, en þar er eimitt ca. helmingurinn af uppskriftunum með eitthvað piparkökutwist (síðan liggur mér við að segja að restin sé með saffranskryddinu hehe ) – hún var bæði fljótleg og mjög góð.
Ég er búin að læra það varðandi kladdkökur að baka þær ekki of lengi. Ég hef tendens til að baka kökur aðeins of lengi frekar en of stutt og hef átt dálítið erfitt með að fara eftir uppgefnum bökunartíma en það skiptir máli að baka þær ekki of lengi því kladdkaka á ekki að vera bökuð alveg í gegn. Hitt sem ég er búin að læra er að þeyta eggin og sykurinn í höndunum og nota ekki hrærivélina eða rafmagnshandþeytara í verkið.
Piparkökukladdkaka
150 gr smjör
3 egg
3 dl sykur
3/4 dl kakó
2,5 dl hveiti
Salt á hnífsoddi
1 tsk vanillusykur
1/2 – 1 tsk kanill
1/3 – 1 tsk engifer
1/4 tsk negull
2,5 msk ljóst síróp
Súkkulaðibráð
1,5 dl rjómi
200 gr dökkt súkkulaði
1 msk smjör
Stillið ofninn á 175 gr.
Bræðið smjörið. Þeytið egg og sykur létt saman (ekki með rafmagnsþeytara, bara í höndum). Blandið saman öllum þurrefnum og hrærið niður í eggjablönduna ásamt sírópinu og brædda smjörinu.
Smyrjið lausbotnaform að innan, ca. 24 cm, og hellið deiginu í það. Bakið í neðri hluta ofnsins í ca. 25 mín. (ATH: ekki baka of lengi, kakan á að vera mjög mjúk í miðjunni). Látið kökuna kólna
Súkkulaðibráð: Setjið rjómann í pott og hitið að suðu. Saxið súkkulaðið. Takið pottinn af hellunni og setjið súkkulaðið út í, hrærið þar til bráðið. Setjið smjörið út í og hrærið vel. Setjið bráðina á kökuna og setjið hana í kæli meðan bráðin er að þykkna ofan á.