Gerbakstur

Epla- og karamellusnúðar

Epla- og karamellusnúðar

Einu sinni þoldi ég ekki gerbakstur, hann misheppnaðist alltaf, deigið var of klístrað, of þurrt, hefaði sig ekki nóg eða bara ekki neitt og var almennt bara mjög misheppnaður hjá mér. Mamma gerir heimsins bestu kanilsnúða (ég get alveg viðurkennt að mínir verða aldrei alveg jafn góðir og hennar) og það fór svo í taugarnar á mér að ég gæti ekki leikið þetta eftir í eigin eldhúsi að ég ákvað að gera gerdeigs-átak í eldhúsinu mínu sem heppnaðist svo vel að ég er eiginlega gerdeigsbakstursóð síðan. Það skýrir kannski ástríðu mína á snúðabakstri, mér finnst alveg ótrúlega gaman að baka snúða (og enn betra að borða þá) og finnst sérlega gaman að prófa nýjar fyllingar í þá.

Epla- og karamellusnúðar

Ég sá karamellueplasnúða á netinu fyrir löngu sem mig langaði afar mikið til að prófa að baka. Prófaði síðan að baka þá í u.þ.b. 70 þúsund gráðu hita í sumar. Var samt ekki alveg nógu ánægð með þá þannig að ég leitaði að annarri uppskrift og fann aðra sem ég studdist við. Ég notaði norsku kanilsnúðana hennar Unni sem grunnuppskrift og gerði eplasnúða úr 1/3 úr deiginu og venjulega kanilsnúða úr afganginum. Þeir voru mun betri en þeir sem ég gerði fyrst og mér og Binna fannst þeir ótrúlega góðir (börnin eiga það til að afþakka þessa tilraunamennsku móður sinnar í eldhúsinu og gerðu það í þetta skiptið – enda nóg til af venjulegum snúðum líka).

 

IMG_0665

 

Karamellu- og eplasnúðar

Norsku kanilsnúðarnir hennar Unnar

 – ATH: Ég gerði bara eplasnúða úr einum þriðja af deiginu (ég skipti því semsagt í þrjá jafnstóra hluta), ef þið viljið gera eplasnúða úr allri uppskriftinni þurfið þið að þrefalda fyllinguna (eða minnka hana). – 

150 gr kalt smjör
6 dl mjólk
2 egg
75 gr ferskt ger (7,5 tsk eða 22,5 gr þurrger)
2 dl sykur
1/2 tsk salt
1 tsk kardimommukrydd
1 kg hveiti

Fylling
Smjör, mjúkt(magn er smekksatriði – má líka sleppa)
Kanilsykur (magn er smekksatriði)
Eitt epli, afhýtt og skorið í litla bita
Karamellusósa (ég notaði karamelluísósu sem ég átti í skápnum, metnaðarfullir geta gert sína eigin ef þeir eru í stuði 🙂 )

Glassúr
60 gr flórsykur
2 msk mjólk
1 msk karamellusósa

Öllum þurrefnum blandað saman. Smjörið mulið saman við. Eggin slegin í sundur og blandað saman við mjólkina. Gerið leyst upp í eggjamjólkublöndunni (eða þurrgerið ef því er að skipta, það mætti líka setja þurrgerið beint út í hveitiblönduna og blanda ásamt hinum þurrefnunum) og henni svo hrært saman við þurrefnin. Hnoðað vel (í höndum eða í hrærivél). Látið lyfta sér í ca. klst. Deiginu er svo skipt í þrjá jafnstóra hluta.

Flatt út í ferhyrning, smjöri dreift yfir og kanilsykri stráð yfir, eplabitunum stráð yfir og að lokum er dálítilli karamellusósu dreift yfir. Deiginu er svo rúllað upp og skorið í bita. Sett í ferhyrnt sæmilega stórt eldfast mót og látið lyfta sér aftur í ca. hálftíma. Bakað við 180 gr. þar til gullinbrúnir.

Glassúrinn er búinn til með því að blanda öllu saman og hella yfir snúðana þegar þeir eru tilbúnir og ennþá heitir.

 

Epla- og karamellusnúðar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s