Miðað við að ég gaf mér og systur minni einhvern tíman viðurnefnið ‘snúðasystur’ þá hef ég ekki verið sérlega dugleg að prófa nýjar snúðauppskriftir í vetur. Þá sem hér fylgir á eftir prófaði ég um páskana (sem skýrir gulu páskaliljurnar) – semsagt, enn ein uppskrift sem ég hafði ekki alveg tíma til að koma á blað þegar mesti ritgerðarhamangurinn stóð yfir 🙂 Snúðarnir slógu sérstaklega í gegn hjá eiginmanninum sem er mikill aðdándi sítrónubragðs.
Marsípan- og sítrónusnúðar
Deig
25 g ferskt ger/2,5 tsk þurrger
125 g smjör
5 dl mjólk
½ tsk salt
1,25 dl sykur
2 egg
15 dl hveiti
Fylling
300 gr marsípan
150 gr smjör, við stofuhita
Rifinn börkur af einni sítrónu
4 msk sítrónusafi
Egg og möndluspænir
Glassúr
2 dl flórsykur
2 msk sítrónusafi
Aðferð
Bræðið smjörið í potti, hellið mjólkinni undir og hitið að ca. 37°c. Myljið ferska gerið út í mjólkina og leysið upp (ef þið notið þurrger, blandið því þá beint út í hveitið). Bætið salti, sykri og eggi út í vökvann. Bæti hveiti út í vökvann í nokkrum skömmtum og hnoðið vel. Geymið örlítið hveiti þangað til deigið er flatt út. Látið deigið hefa sig í ca. 45 mínútur eða þar til það hefur tvöfaldað sig.
Fyllingin er búin til með því að rífa niður marsípanið og blandið saman við smjörið, sítrónubörkinn og sítrónusafann.
Skiptið deiginu í 2 jafna hluta. Fletjið hvorn hluta út fyrir sig í ferhyrningin og smyrjið fyllingunni á. Rúllið deiginu upp og skerið hvora lengju fyrir sig í ca. 18 bita. Setjið snúðana á ofnplötu klædda með bökunarpappír. Látið snúðana hefa sig í ca. 30 mínútur og stillið ofninn á 250°c.
Sláið í sundur eggið, penslið snúðana með egginu og stráið möndluspæni yfir. Bakið í miðjum ofni í 8 – 10 mínútur.
Blandið saman flórsykri og sítrónusaft. Setjið glassúrinn á snúðana þegar þeir eru orðnir kaldir.
Það má bæta því við vegna nokkura fyrirspurna að það eru 15 dl af hveiti sem fara í snúðana 🙂 þetta er ekki innsláttarvilla
15 dl hveiti?
Var einmitt líka að velta þessu fyrir mér.
Þessir 15 dl hveiti samsvara 900 gr og er þetta ekki innsláttarvilla 🙂