Eitt af því sem kom mér á óvart þegar við fluttum til Svíþjóðar var að Svíar borða kjötbollurnar sínar við öll tækifæri, á mánudögum og laugardögum, á jólunum, á jólahlaðborðum, á midsommar-hátðinni (sem er nærri stærri en jólin) – já, Svíar láta sér ekkert tækifæri til að borða köttbullar ganga úr greipum!
Eftir 5 ára búsetu í Svíþjóð þar sem sænskar kjötbollur hafa verið borðaðar minnst mánaðarlega, teljum við fjölskyldan okkur vera orðin hálfgerða „connoisseurs“ þegar kemur að þessum þjóðarrétti Svía. Hér má auðvitað fá sænskar kjötbollur í öllum stærðum og gerðum út í búð, svo það var eiginlega ekki fyrr en í vetur sem Binni fór að gera okkar eigin. Það kemur auðvitað í ljós að öllum finnst þær betri en þær búðarkeyptu og þar að auki er uppskriftin svo einföld og fljótleg að það er ótrúlegt að við höfum ekki látið ráðast í þetta verkefni fyrr.
Þetta er frábær grunnuppskrift að kjötbollum, það má svo leika sér heilmikið með hana, t.d. bæta hvítlauk og ýmsum kryddum við sem Binni gerir gjarnan. Uppskriftin er stór, hálf uppskrift myndi eflaust nægja mörgum en okkur finnst fínt að gera stóra uppskrift og frysta helminginn því það er mjög gott að hita þessar bollur upp 🙂
Sænskar kjötbollur
15 litlir skammtar, helmingið gjarnan eða frystið.
2 dl mjólk
1 dl rjómi/matreiðslurjómi
1 1/2 dl rasp
1 kg blandað hakk (Yfirleitt eru hlutfallið 70% nautahakk og 30% svínahakk)
2 tsk salt
2 – 3 tsk pipar, helst hvítur.
1/2 tsk sykur
2 egg
1 1/2 dl rifinn laukur
smjör (til steikingar)
Blandið mjólk, rjóma og brauðmolum/raspi. Láta standa í u.þ.b. 10 mínútur.
Blandið hakkið með salti, pipar og sykri. Bætið eggjum út í og blandið vel saman. Hrærið mjólkur/raspblöndunni og lauk saman við hakkið og blandið vel saman.
Mótið litlar bollur úr hakkinu. Steikið bollurnar á pönnu, og snúið reglulega. Einnig er hægt að steikja bollurnar í ofni, við 200 c, en þá verður að muna að snúa þeim mjög reglulega.
Borið fram með kartöflum, brúnni sósu og sultu (við notum hindberjasultu en ef þið viljið taka ekta Svía á þetta má kaupa lingon-sultu í IKEA) 🙂
Snilld þessi síða ykkar og oft hefur hún komið sér vel hér á bæ. Kærar þakkir systur og frænkur.
Kærar þakkir fyrir það frænka – það er fátt skemmtilegra heldur en þegar við heyrum af því að fólk noti uppskriftirnar okkar 😀