Eftirréttir · Kökur

Twix ostakaka

 

Twix ostakaka

Við fjölskyldan erum búin að hafa það ósköp rólegt og notalegt yfir hátíðarnar. Við höfum aldrei farið heim til Íslands yfir jólin frá því að við fluttum út og breyttum ekki út af þeim vana að þessu sinni. Það getur líka verið ósköp notalegt að vera í ró og næði heima hjá sér 🙂

Við erum ekki vön að vera með desert á aðfangadagskvöld. Ég bý til nóg af ris a la mande sem við borðum í hádeginu á aðfangadag (og næstu daga 😉 ) og vanalega höfum við látið það nægja en núna langaði mig að búa til einhvern eftirrétt til að hafa á eftir kalkúnanum. Það var auðvitað þannig að við vorum svo pakksödd að það hafði enginn pláss fyrir eftirrétt fyrir en talsvert löngu eftir að pakkarnir höfðu verið opnaðir en það er líka allt í lagi 🙂

Twix ostakaka

Fyrir valinu varð þessi twix-ostaka. Kakan er fryst og er með eggjagulum (sem mér sýnist vera standard í sænskum frystum ostakökum) og hefur þ.a.l. á sér smá ís-yfirbragð. Hún var æðislega góð en ég held samt að það myndi ekkert saka að minnka aðeins sykurmagnið í henni, ég prófa það örugglega í næstu útfærslu 😉

Twix ostakaka

Twix ostakaka

 Botn

12 digestive kexkökur
75 gr smjör

Fylling

3 dl rjómi
200 gr rjómaostur
2 eggjarauður
2 dl sykur
1 tsk vanillusykur
2 pakkar twix-súkkulaði (4 stangir) og meira til að skreyta, ef vill.

Aðferð
Myljið niður kexið og blandið saman við bráðið smjörið. Setjið í botninn á lausbotna formi (eða pæ-formi) og þjappið vel niður í formið.

Þeytið saman sykur, eggjarauður og vanillusykur þar til ljóst og létt.

Þeytið rjómann, og þegar hann er alveg að verða til, setjið þá rjómaostinn út í og þeytið saman við. Blandið síðan rjóma- og eggjablöndunum saman.

Skerið twixið í litla bita og blandið saman við deigið. Hellið deiginu yfir kexbotninn og setjið formið inn í frysti í minnst 4 tíma, en þó helst yfir nótt. Takið kökuna úr frystinum nokkru áður en þið berið hana fram.

Skreytið með twix-súkkulaði ef vill.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s