Ég er búin að vera með þetta kanilkúlubrauð á todo-listanum mínum í marga mánuði og fannst tilvalið að prófa það í gær. Við fjölskyldan vorum nýkomin úr sundi (og það rándýru, eitt af því sem við söknum mikið frá Íslandi skal ég segja ykkur). Þetta er eitthvað sem kallast monkey-bread eða apabrauð í ameríku og er víst talsvert vinsælt þar. Ég var svolítið að spá í hvort karamellan yrði ekki dálítið overkill en ég vil helst ekki breyta uppskriftum mikið fyrr en ég er búin að prófa þá upprunalegu einu sinni þannig að ég gerði þetta eins og leiðbeiningarnar mæltu fyrir um. Og herregud bara, þvílíkt nammi. Það varð eitthvað lítið um kvöldmat á heimilinu þegar við fjölskyldan vorum búin að úða þessu í okkur! Þetta var eiginlega bara alveg hræðilega gott…
Uppskriftin er stór, og hún var of stór fyrir bundt-kökuformið mitt. Ég myndi ekki fylla nema svona 2/3 af forminu sem þið notið og annað hvort búa til minna deig eða nota restina af deiginu í annað minna form eða búa til litla snúða úr restinni (þ.e. ef ykkar form er af sömu stærð og mitt, mitt er kannski bara svona lítið).

Ég vissi eiginlega alveg þegar ég fyllti formið upp að brún að þetta myndi enda illa, enda duttur nokkrar kúlur úr forminu hjá mér. Svona er græðgin 🙂
Apabrauð með kanilsykri og karamellu
Deig
2,5 tsk þurrger/25 gr ferskt ger
0,6 dl vatn, volgt
3,1 dl mjólk, volg
75 gr smjör, bráðið
50 gr sykur
2 egg
1 tsk salt
640 gr hveiti
Kanilsykur + smjör (til að rúlla bollunum upp úr)
113 gr smjör, bráðið
200 gr sykur+ 1 – 1,5 msk kanill, blandað saman
2 dl pekanhnetur, hakkaðar (ef vill)
Auðvelt karamellusósa
113 gr smjör
220 gr púðursykur,
3 msk rjómi
Aðferð
Blandið þurrgerinu saman við hveitið (ef þið notið ferskt ger myljið það þá út í vökvann, t.d. mjólkina og látið leysast alveg upp áður en þið blandið saman við restina af hráefnunum). Setjið öll hráefnin út í skálina og hnoðið (auðvitað má hnoða í höndunum líka ef þið eigið ekki hrærivél eða finnst það betra/skemmtilegra). Látið hefa sig þangað til deigið hefur tvöfaldað sig.
Þegar deigið er búið að hefa sig er deigið kýlt niður, og litlir bitar af deiginu teknir og búnir til deigboltar. Ekki hafa þá of stóra, það þarf talsvert af boltum í formið (ég bjó örugglega til 40 – 50).
Þegar allir boltarnir eru tilbúnir, dýfið þeim þá fyrst í smjörið og rúllið þeim svo upp úr kanilsykursblöndunni.
Raðið í smurt form, best er að nota svokallað bundtkökuform eins og ég notaði.(sjá hér). Látið hefa sig aftur í ca. hálftíma.
Á meðan deigið hefar sig í annað skipti er karamellan búin til. Bræðið smjörið og þegar það er alveg bráðið, bætið þá bæði púðursykrinum og rjómanum út í og látið ná suðu. Látið malla í 3 – 4 mínútur (ekki meira) og takið af hellunni.
Setjið ofninn á 175°c.
Áður en formið fer inn í ofninn hellið þá helmingnum af karamellunni yfir deigboltana. Bakið í 30 – 35 mínútur. Takið formið úr ofninum, og látið kólna í u.þ.b. 5 mín. Hvolfið þá úr forminu yfir kökudisk. Hitið karamelluna í örstutta stund og hellið henni svo yfir kökuna. Berið fram og njótið 🙂