Seinni uppskrift dagsins kemur líka úr smákökubók Hembakat. Þegar maður skoðar sænskar smákökuuppskriftir þá virðast allskyns tegundir af „snittum“ vera mjög vinsælar hér, og bókin sem ég fékk er full af þeim. Ég ákvað að prófa þessar eplasnittur, ég meina smjördeig og eplamauk? Hvað getur eiginlega klikkað? Tja, ekki svo margt nema eftir á held ég að ég hafi haft lengjurnar of breiðar og þunnar. Það hefði sennilega verið betra að hafa þær mjórri og þá hefði rákin líka orðið dýpri og meira eplamauk getað leynst þar. En okkur finnst snitturnar samt mjög góðar eins og þær eru (svo það sé nú alveg á hreinu 🙂 )


Eplasnittur
U.þ.b. 30 st.
2,5 dl hveiti
100 gr smjör, við stofuhita
3 msk sykur
1 msk rjómi
Fylling
1 dl eplamauk
Aðferð
Blandið öllum hráefnum saman í hrærivél (eflaust er gott að nota matvinnsluvél líka, kitchen aidið vann samt vinnuna sína hér hjá mér). Mótið stóra kúlu úr deiginu. Látið hvíla í kæli í 1 – 2 tíma.
Stillið ofninn á 200°c. Skiptið deiginu í 2 jafnstóra helminga. Keflið hvorn helming út í 30 cm. lengju. Leggið báðar lengjurnar á ofnplötu (klædda með bökunarpappír). Ekki hafa lengjurnar of breiðar. Búið til dæld eftir hvorri lengju (t.d. með því að þrýsta þumlinum niður í hana). Setjið eplamauk í dældina.
Bakið í miðjum ofni í 10 – 12 mín. Látið lengjurnar kólna og skerið svo í hæfilega stóra bita.
(Skv. upplýsingum í bókinni eiga snitturnar að henta vel til frystingar 🙂 )
