Ég baka alls ekki alltaf sömu tegundirnar á hverri aðventu. Ég er með nokkra „standarda“, svosem mömmukökur, piparkökur og kurltoppa en annars finnst mér mjög gaman að finna eitthvað nýtt til að prófa. Í ár fékk ég senda heim litla smákökubók frá tímaritinu Hembakat og þar mátti finna nóg af spennandi og girnilegum smákökuuppskriftum. Ég leyfði heimilismeðlimunum að velja sér eina tegund hver úr henni. Binni elskar allt sem er með sítrusávöxtum og merkti strax við allt sem var með appelsínum, sítrónum eða lime. Ég ákvað því í gær, á fyrsta frídeginum í verulega langan tíma, að skella í nokkrar sortir og þ.á.m. þessar stökku smákökur með appelsínukeim. Reglulega góðar smákökur, var samdóma álit heimilismeðlima 🙂
Appelsínudraumar
U.þ.b. 50 st.
100 gr smjör, við stofuhita
1 dl matarolía (með litlu bragði, ekki ólívuolía t.d.).
2,5 dl sykur
1 tsk vanillusykur
2,5 dl hveiti
1 dl kartöflumjöl
2 tsk lyftiduft (eða 1 tsk hjartarsalt)
Börkur af 1,5 appelsínu.
Aðferð
Ofninn stilltur á 175°c.
Smjör, olía og sykur þeytt saman þar til ljóst og létt. Öðrum hráefnum bætt út í og allt hrært saman með sleif.
Búið til litlar kúlur úr deiginu og leggið á ofnplötur sem búið er að klæða með bökunarpappír. Passið að setja ekki of þétt saman, kökurna fletjast út í ofninu.
Bakið í miðjum ofni í u.þ.b. 12 mínútur.
Án efa mjög góðar en gætu þær ekki verið góðar með aðeins minni sykri, hann er jafn mikill og hveitið.