Gerbakstur · Jól

Saffran-bollur (Lussekatter)

Lussekatter

Þegar við fjölskyldan fluttum til Svíþjóð í fyrra skiptið smökkuðum við auðvitað hina margfrægu Lussu-ketti, þ.e. saffransbollur. Mér fannst þetta dálítið spes bakkelsi, svona til að vera alveg hreinskilin. En núna er ég alveg dottin á bólakaf í Lussu-pottinn, og að ég held öll fjölskyldan. Strákarnir fengu snúða með saffrani í haust og þá heyrðist í öðrum „það er svona jólabragð af þessu!“.

Saffran hér í Svíþjóð er selt í pínulitlum pökkum, niðurmalað og er greinilega nógu vinsælt til þess að því er haldið aðskildu frá öðru góssi í verslunum og bara hægt að fá það á kassanum.
IMG_9076

 

Maður getur fengið lussekatter bókstaflega alls staðar, frá og með ca. nóvember. Þeir sem maður kaupir út í búð eiga hins vegar ekki roð í þá sem maður bakar sjálfur. Af einhverjum ástæðum á þetta brauð til að þorna upp hratt, þannig að ég skelli þessu beint í frystinn eftir bakstur, og tek svo út í hæfilegum skömmtum og hita upp 🙂

IMG_9087

Ég veit ekki hvernig Saffran er selt heima, en svo það sé á hreinu þá þarf að mala það (t.d. í mortéli) fyrir notkun, það sem maður notar í bakstur er eins og duft. Vanalega eru gerð svona eins og lítil S úr deiginu, með rúsínu í endunum (en það má auðvitað gera hvaða form sem er!). Mig langaði að gera eitthvað annað og ákvað að gera saffran-fléttu, með smjöri og marsípani. Þetta var ótrúlega gott, ég fékk 3 fléttur úr deiginu og ætla einmitt að skella þeirri síðustu í ofninn núna, á þessum þriðja í aðventu með heita súkkulaðinu 🙂

IMG_8982
Hefðbundin lussu-form

Saffran-bollur (Lussekatter)

50 gr ferskt ger/ 5 tsk þurrger
100 gr smjör
5 dl mjólk
250 gr rjómaostur (Kesella í Svíþjóð eða kvarg)
1 g saffran
1,5 dl sykur
½ tsk salt
17 dl hveiti ca.
Rúsínur
1 egg (til að pensla með)

Bræðið smjörið í potti. Setjið mjólkina út í og hitið þar til volgt, ca. 37°c. Myljið gerið út í vökvann  og hrærið þar til það hefur leysts alveg upp (má líka setja þurrgerið beint út í hveitið og hræra vel þannig). Bætið rjómaosti, saffran, sykri, salti og megninu af hveitinu út í. Hnoðið þar til deigið er orðið þægilegt meðferðar og ekki of klístrað (bætið við hveiti eftir þörfum). Látið hefa sig í 30 mín. Deigið er hnoðað aftur og svo skipt niður í ca 35 bollur. Hverri bollu er svo rúllað upp í lengju og snúnar frá báðum endum og myndað einskonar S úr þeim. Skreitið með rúsínu í endana. Látið hefast aftur undir viskustykki í 30 min. Penslað með egginu. Bakað í 5 – 7 mínútur við 225°c.

Lussekatter með marsípani
Aldrei þessu vant er guli liturinn ekki vélinni að kenna, heldur er fær deig á sig gullin blæ vegna saffransins 🙂

Ég ákvað að búa til saffransfléttur í þetta skiptið í staðin fyrir litlu snúningana. Skipti deiginu í þrjá jafn stóra búta. Keflaði hvern bút í aflangan ferhyrning, skar raufir í deigið eins og sýnt er á myndinni. Smurði með vænum bút af bræddu smjöri og stráði marsípani yfir og fléttaði svo yfir. Nammi namm  🙂 Sjá betri leiðbeiningar hér.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s