Það er orðið ansi langt síðan þessi baka var bökuð 🙂 Við minnumst hennar ennþá, það kemur alltaf glampi í augun á Halla þegar hún er nefnd. Ég ákvað að skella í þessa þegar eurovision var þar sem við barnafólkið treystum okkur ekki til að fara á keppnina sjálfa þó hún væri hér í næsta bæ. Rann hún ljúflega niður með misljúfum tónum eurovision.
Sumarleg berjabaka með mascarpone
Botn
100g marsipan
150g smjör
2 1/2 bollar hveiti
Fylling
1 tsk vanilludropar
5 eggjarauður
1 bolli sykur
250 g mascarpone ostur
2 matskeiðar mjólk
250g hindber, bláber, brómber eða jarðarber
Skraut
250g hindber, bláber, brómber eða jarðarber
flórsykur
Botn
Rífið marsipanið gróft niður. Skerið smjörið í teninga og blandið því saman með marsipaninu og hveitinu. Pressið deigið í bökuform (ca 28 cm í þvermál), passið að þekja formið vel þannig að deigið sé jafn þykkt, og að það fari upp með hliðum formsins. Setjið formið inn í ísskáp í um 30 mínútur.
Hitið ofninn í 175 gráður. Bakið botninn í 15 mínútur.
Fylling
Þeytið saman eggjarauðunum og sykri. Hrærið mascarpone ostinum, vanilludropum og mjólk saman. Ostablöndunni er svo hrært saman við þeyttu eggjarauðurnar. Hellið blöndunni í bökuformið með forbakaða botninum í. Stráið berjunum yfir fyllinguna og bakið í 30 -35 mínútur.
Látið bökuna kólna, skreytið með að lokum með berjum og sigtið flórsykur yfir.
Ein athugasemd á “Sumarleg berjabaka með mascarpone”