Ég er áskrifandi að sænska baksturstímaritinu „Hembakat“ og stundum vildi ég eiginlega óska þess að ég væri það ekki (eða þið vitið, bara næstum því sko ekki alveg). Í hverju einasta tölublaði eru minnst 10 uppskriftir sem mig langar til baka enda er ég búin að setja nokkrar uppskriftir úr þessu blaði inn á þetta blogg. Þessi uppskrift kemur líka þaðan og var mjög góð sem eftirréttur á eftir páskamatnum (já, já – ég er komin aðeins á eftir með að setja uppskriftir inn 🙂 ) Ég hef ekki notað ástaraldin áður í bakstur en dísus hvað þetta eru góðir ávextir. Okkur langar næstum að fara nota það með öllu sem við borðum núna – jömmí 🙂
Ostakaka með hvítu súkkulaði og ástaraldin
Botn
10 digestive kexkökur
1 msk sykur
1/2 msk kartöflumjöl
50 gr smjör, við stofuhita
Fylling
200 gr hvítt súkkulaði
600 rjómaostur, við stofuhita
1 dl flórsykur
3 egg
Ofan á kökuna
4 – 5 ástaraldin
1 dl rautt rifsberjahlaup
Stillið ofninn á 150 gr.
Kexkökurnar eru muldar alveg niður og blandað saman við sykurinn, kartöflumjölið og smjörið í matvinnsluvél (eða í höndunum ef þið eigið ekki slíka).
Setjið í smurt smelluform (má líka sníða til bökunarpappír og setja í botninn á forminu). Þrýstið mylsnunni í botninn á forminu og aðeins upp eftir kantinum á forminu. Bakið í miðjum ofni í ca. 10 mínútur og látið svo kólna.
Bræðið súkkulaðið og látið kólna vel. Þeytið rjómaostinum, flórsykrinum og eggjunum saman þar til það er alveg mjúkt og slétt. Hrærið súkkulaðið út í (ath. ekki setja súkkulaðið út í þegar það er enn heitt, það er ávísun á að það hlaupi í kekki !)
Hellið fyllingunni á mylsnubotninn og bakið síðan í miðjum ofni í 50 – 55 mínútur. Látið kökuna kólna alveg. Hlaupið hitað í potti (til að mýkja það upp) og innihaldinu úr ávöxtunum blandað saman við. Hellt yfir kökuna og hún kæld þar til hún er borin fram.