Ætli það finnist ekki flestum jafn gott og mér að fá nýbakaðar bollur í morgunmat, sérstaklega þegar allir í fjölskyldunni eru í fríi og alveg á fullu að hafa það huggulegt? Ég prófa alltaf af og til nýjar bolluuppskriftir og finnst þær satt best að segja afar misgóðar. Ég er sérstaklega svag fyrir að prófa kaldhefaðar bollum, þ.e. sem maður hrærir í og hnoðar að kvöldi og þarf bara að forma og baka að morgni. Uppskriftin sem fylgir þessari færslu gerir m.a.s. ráð fyrir því að maður formi bollurnar að kvöldi þannig að eina sem maður þarf að gera er að hita ofninn að morgni og setja bollurnar inn. Win-win fyrir mig – sérstaklega þar sem þær voru líka mjög góðar. Þessar fara klárlega í „gera aftur“-flokkinn (ég er m.a.s. búin að baka þær tvisvar í páskafríinu sem er hlýtur að vera ákveðinn gæðastimpill!)
Kaldhefaðar morgunverðarbollur
2 tsk þurrger / 20 gr ferskt ger
2,5 dl kalt vatn
0,5 dl mjólk
1 tsk salt
1 msk matarolía
1 dl heilhveiti (eða grahamsmjöl)
6 – 6,5 dl hveiti
Vatni, mjólk og olíu blandað saman og gerinu bætt út í (eða ferska gerið leyst upp í vökvanum).
Salti, heilhveiti og hveiti hrært saman og vökvanum bætt út í. Hnoðað í 5 mínútur í hrærivél eða í 10 mínútur í höndunum. Deigið á ekki að vera klístrað þannig að bætið við (venjulegu) hveiti eftir þörfum til að fá rétta áferð. Látið hefa sig í ca. klst. (eða þar til deigið hefur ca. tvöfaldað sig).
Deiginu er skipt upp í 10 – 12 bita og mótaðar bollur sem er settar á ofnplötu (sem búið er að klæða með bökunarpappír). Plastfilma sett yfir og sett í ísskáp yfir nóttina.
Að morgni eru bollurnar teknar úr ísskápnum og geymdar við stofuhita meðan ofninn er hitaður í 250 gr. c. Bakaðar í miðjum ofni í 12 – 15 mínútur (ég myndi segja nær 12 mínútum, allavega í mínum ofni).