Það viðurkennist hér með að ég hef aldrei bakað skinkuhorn. Og í dag sögðust synir mínir aldrei hafa smakkað slíkt bakkelsi. Er þetta ekki ótrúlegt? Kannski er það vegna þess að mér hefur aldrei þótt íslensk skinka sérstaklega girnileg og slík horn því aldrei talað sérstaklega til mín?
Þegar ég aftur á móti sá uppskrift að svona súkkulaðihornum í blaðinu Bakat þá kviknaði hins vegar löngun til að prófa og mér datt í hug að setja bæði nutella og marsípan í hornin. Ég bauð hádegisverðargestum dagsins upp á þau m.a. og við vorum öll sammála um að þetta væri algert gúmmelaði. Nammi nammi namm! Þetta er klárlega eitthvað sem mætti gera í miklu magni og frysta og draga fram við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Það verður reyndar ekkert fryst af skammti dagsins því þau kláruðust ansi hratt 🙂 Núna skil ég hins vegar af hverju það er svona vinsælt að baka svona horn því það tekur enga stund að búa þetta til (fyrir auðvitað hefunina en það þýðir ekkert að telja það með 🙂 )
Nutella- og marsípanhorn
5 dl mjólk
5 tsk þurrger (50 gr ferskt ger)
1,5 dl sykur
840 gr hveiti (14 dl)
1/2 tsk salt
150 gr smjör við stofuhita
Nutella
Marsípan
Egg
1. Velgið mjólkina og stráið þurrgerinu yfir (eða leysið ferska gerið upp í henni). Blandið saman þurrefnunum (hveiti, sykri, salti) og hellið mjólkinni yfir. Skerið smjörið í bita og setjið út í. Hnoðið í höndunum eða í hrærivél í 5 – 10 mínútur. (ATH: ég þurfti að bæta svolítið af hveiti við til að fá góða áferð á deigið, prófið ykkur aðeins áfram ef ykkur finnst það blautt). Látið hefast í ca. klst.
2. Skiptið deiginu í tvo jafnstóra helminga. Fletjið hvorn helming út í aflangan ferhyrning. Skerið hvort stykki í u.þ.b. 10 þríhyrninga.
3. Setjið nutella og smá marsípanstykki á breiðari endann á hverjum þríhyrningi og rúllið honum svo upp í horn. Leggið á bökunarplötu, penslið með eggi og látið hefast í ca. hálftíma. (Ég sleppti egginu sökum eggjaofnæmis hjá einum gesti).
4. Bakið við 200 gr. c í ca. 10 mínútur.
Ein athugasemd á “Nutella- og marsípanhorn”