Eins og mér finnst gaman að gerbakstri þá er ég ekkert rosalega dugleg við að prófa nýja brauðuppskriftir. Ég er samt alltaf að reyna að horfa í kringum mig og finna eitthvað spennandi og um daginn sá ég uppskrift að tómat- og mozzarellabrauði í sænska tímaritinu Bakat. Ég ákvað að það hlyti að vera gott með ítölsku grænmetissúpunni sem ég geri oft þegar við fáum gesti í hádegismat og það reyndist vera rétt því brauðið var ofsalega gott. Uppskriftin er stór, fjögur ágætlega stór brauð en það kom ekki að sök því ég frysti þá bara restina af brauðinu. Ég mæli alveg með að prófa þessa uppskrift ef ykkur langar að brydda upp á einhverri nýjung í brauðbakstrinum 🙂

Tómat- og mozzarellabrauð
4 meðalstór brauð
50 gr smjör
5 dl mjólk
5 tsk þurrger (50 gr ferskt ger)
1 tsk salt
2 msk hunang
8 dl heilhveiti (eða grahams-hveiti)
5 dl hveiti
2 mozzarellakúlur
15 kirsuberjatómatar
1 pottur af ferskri basiliku
Smjörið brætt og mjólkinni blandað saman við (vökvinn á að vera volgur). Gerinu blandað út í vökvann. Salti og hunangi bætt út í. Öllu hveitinu bætt út í annað hvort með höndunum eða í hrærivél (með deigkrókinum) og unnið aðeins saman
Mozzarella-osturinn skorinn í bita. Tómatarnir skornir í bita. Basilikan rifin niður. Ostinum, tómötunum og basilikunni er blandað í deigið og hnoðað. Látið hefast undir viskastykki í 30 mínútur (eða þar til tvöfaldað að stærð).
Deigið er hnoðað aðeins og svo deilt í 4 hluta. Hver deighluti er formaður í brauð og látinn á ofnplötu, það komast 2 brauð fyrir á hverri plötu (sem búið er að klæða með bökunarpappír). Látið hefa sig í 30 mínútur.
Bakað við 225 gr. c. í ca. 20 mínútur.