„Binni eldar það sem Stína segir honum“-teymið var aftur að störfum í kvöld. Mér fannst uppskriftin af matklubben heppnast svo vel fyrir tveim vikum að ég ákvað að leita þangað aftur. Og hver stenst uppskrift sem er titluð: „Absolut bästa fläskfilén“ ? Hún var allavega með toppeinkunn hjá þeim fjölmörgu Svíum sem virðast leggja leið sína inn á þennan uppskriftavef. Ég get allavega sagt ykkur það að ilmurinn þegar rétturinn var kominn í ofninn gaf virkilega fögur fyrirheit! Og gott var’ða! Algerlega lámarksfyrirhöfn sagði Binni líka. Við eigum örugglega eftir að bjóða upp á þetta þegar það koma gestir til okkar – þetta er alveg besta tegundin af gefa-gestum rétt, svakalega gott og súper fljótlegt 🙂
Það mætti svo sannarlega nota kjúklingabringur í staðin fyrir svínakjötið í þennan rétt. Og okkur varð báðum að orði að rétturinn yrði enn betri með sveppum (við höfðum þá bara í salati með) þannig að ég bætti þeim í uppskriftina. Sambal oelek er chilli-mauk sem Svíar nota mikið í pottrétti (væri nú gaman að vita hvers vegna þetta er svona vinsælt hérna) og mér skilst að það megi núna kaupa í m.a. Bónus. Það má alveg skipta mascarpone-ostinum út fyrir rjómaost, ég mæli ekki með því að kaupa einhver örfá grömm af honum fyrir kannski þúsund krónur þegar það er hægt að nota rjómaost í staðin!
Svínalund í mango chutney-rjómasósu
1,2 kg svínalund (mætti líka alveg nota kjúklingabringur)
Salt
Pipar
250 gr mascarpone ostur (eða rjómaostur)
2 grænmetisteningar
2 dl sýrður rjómi (við notuðum 15%)
3 dl rjómi (allt í lagi að nota matreiðslurjóma)
1 – 1,5 tsk sambal oelek
1 dl mangó chutney
1 stór rauð paprika
5 – 10 sveppir
Svínalundin er skorin í ca. 1 cm þykkar sneiðar. Steikt á pönnu þar til kjötið er farið að brúnast, kryddað með salti og pipar.
Mascarpone osti, teningum, sýrða rjómanum, rjómanum, sambal oelek og mango chutney blandað saman í potti og hitað að suðu. Paprikan skorin í strimla og sveppirnir skornir niður og bætt út í rjóma-ostablönduna og látið malla.
Svínakjötið sett í eldfast mót, rjóma-ostablöndunni hellt yfir. Sett í ofn og bakað í 45 mín. við 200 gr. c.