Ég verð að viðurkenna að það ætlar að reynast mér þrautin þyngri að finna eitthvað til að baka sem er ekki mjög óhollt. Þetta er víst ekki alveg mín sérgrein 🙂
Ég fékk vinkonu í kaffi um helgina og fann uppskrift að osta- og eplaskonsum frá Smitten Kitchen á netinu. Mér fannst þær ferlega góðar (og reyndar held ég kaffigestinum líka) og sennilega hefur ekki spillt fyrir að þær minna mjög á uppáháldseplakökuna mína sem er einmitt með osti í (það er klárlega uppskrift sem við þurfum að deila með umheiminum sem fyrst).
Allavega, ég vissi semsagt af fyrri reynslu að epla/osta-kombóið er hrikalega gott og þannig hafa þessar skonsur talað mjög til mín frá því að ég sá uppskriftina fyrst. Mér datt svo í hug að prófa að baka þær aftur og gera þær örlítið hollar með því að skipta venjulega hveitinu út fyrir heilhveiti og nota léttmjólk í staðin fyrir rjóma. (Ég er ekki með neitt almennilegt í staðin fyrir sykur, ef þið eruð með uppástungur að því er það vel þegið). Ég verð að segja að mér fannst skonsurnar síst verri svona, þær virkuðu alveg jafn vel svona aðeins hollari 🙂

Osta- og eplaskonsur
2 stór epli eða 4 lítil, helst í súrari kantinum.
210 gr heilhveiti
50 gr sykur
1/2 msk lyftiduft
1/2 tsk salt
85 gr kalt smjör, skorið í litla bita
40 gr cheddar ostur eða annar ostur
4 msk (60 ml) léttmjólk
2 egg
Eplin eru afhýdd, kjarninn tekinn úr þeim og þau skorinn í litla bita. Sett á ofnplötu (klædda með bökunarpappír) og bökuð í u.þ.b. 20 mínútur (þau eiga að vera farin að þorna aðeins og jafnvel brúnast í kantana). Eplin eru svo kæld (það má setja þau í ískáp eða frystinn til að flýta fyrir).
Heilhveiti, sykri, lyftidufti og salti hrært vel saman í skál.
Þegar eplin eru orðin köld er þeim og ostinum blandað saman við hveitiblönduna. Að lokum er smjörinu, léttmjólkinni og einu eggi blandað saman við. Best er að nota „Ká-ið“ á hrærivélinni til að hræra þetta saman (hef einnig haft spurnir af því að hnoðarinn/deigkrókurinn sé að virka vel). Það á að hræra þannig að deigið blandist vel en ekki hræra of mikið, bara rétt þangað til deigið loðir saman (og já, það verða heilir smjörbitar eftir). Deigið verður mjög lint og klístrað. Það mætti líka gera þetta í höndunum en þá verður að mylja smjörið betur niður í hveitið með höndunum áður en maður bætir vökvanum út í.
Setjið deigið á hveitistráð borð, það er ráð að setja VEL af hveiti á borðið. Setjið svo enn meira hveiti ofan á deigið. Mótið hring úr deiginu sem er ca. 20 cm í þvermál. Skerið hringinn í 8 jafnstóra bita. Takið hvern bita fyrir sig og setjið á bökunarpappír á ofnplötu. Hafið smá bil á milli bitanna
Sláið eggið sem eftir er í sundur og penslið hvern bita með því. Stráið örlitlum sykri ofan á.
Bakið í u.þ.b. 30 mínútur eða þangað til skonsurnar eru gullinbrúnar. Látið kólna aðeins.
Skonsur eru almennt bestar heitar og nýbakaðar en eru svona þolanlegar daginn eftir. Ef þið ætlið ekki að borða þær allar strax myndi ég frekar frysta þær og skella í ristina í smá stund frekar en að láta þær standa á borðinu.

Þegar ég bakaði þetta í fyrsta skiptið var ég að stússa með að þurrka eplin en næst keypti ég þurrkuð epli og sauð upp á þeim, same-same en aðeins minna vesen í seinna skiptið.
Já, það myndi aftur þýða búðarferð á þessu heimili þannig að það yrði meira vesen fyrir mig. En sniðug hugmynd 🙂
Annars datt mér í hug að prófa að rífa niður eplin (og ekki baka), ég geri það í eplakökuna en spurning hvort að eplabragðið myndi ekki verða minna fyrir vikið.
ekkert endilega minna bragð, hins vegar of blautt. Það þyrfti kannski að salta eplin og láta renna af þeim í gegnum sikti. Ef það er týpa sem verður fljótt brún, þá væntanlega nokkrir dropar af sítrónusafa yfir líka…
Mér finnst þetta spennandi meðlæti en er fyrir löngu búin að losa mig við hrærivélina og yrði því að vinna þetta í höndunum.
Jæja, ég hef gert þessa uppskrift svona 4-5 sinnum áður og alltaf fengið mjög góðar skonsur en örvæntingin hefur ætíð látið á sér kræla þegar ég hef hrært deigið því það verður alltaf svo klesst 😉 En, með því að nota krókinn eins og þú bendir á, þá gekk þetta mun betur núna. Ég hrærði öllu nema eplabitunum fyrst aðeins saman og bætti svo eplabitunum við. Ég nennti ekki að bíða eftir að eplabitarnir kólnuðu. Prófaði líka að hafa 100% heilhveiti en ekki til helminga eins og ég er vön og þetta varð mjög gott, auðvitað líkara brauði heldur en með 1:1 hveiti/heilhveiti þegar þetta er kökulegra.
Mér finnst ég annars rosalega lengi að baka þetta, 50 mínútur frá því ég byrja að skræla eplin þar til deigið er komið í ofninn og það með nær engri truflun frá fjölskyldumeðlimum 🙂
Ókei, það er ekki sniðugt að setja eplin alveg beint úr ofninum í deigið eins og ég gerði á sunnudaginn, þá varð það of blautt. Á laugardaginn fengu eplin að standa aðeins á borðinu áður en þeim var dembt út í 🙂
Þú hlýtur að vera komin með mastersgráðu í þessari uppskrift Inga, búin að prófa allar mögulegar útfærslur haha 😀
Bakaði þessar aftur í dag, er til eplaskonsu anonymous ? 😉
Hahaha – mér líst vel á þig Inga 😀 (en þær eru líka sjúklega góðar 😉 )