Það getur orðið ansi kalt í Stokkhólmi og í byrjun vikunnar fór kuldinn í -15 gráður. Svíar halda reyndar oft að þar sem við erum Íslendingar hljótum við að vera vön þessu en ég er nú yfirleitt fljót að leiðrétta þann misskilning 😉 Í kuldanum fannst okkur upplagt að hlýja okkur með rjúkandi eplabögglum sem ég hafði einhvern tíman fundið á Taste of Home.
Binni ákvað að taka verkefnið að sér, hann er liðtækur í eldhsúinu þó að yfirleitt láti hann mig um sætindin. Mér fannst þetta bara heppnast mjög vel hjá eiginmanninum 🙂
Hráefni
Fylling
70 gr sykur
1 tsk hveiti
1/2 tsk kanill
4 bollar epli, afhýdd og í litlum bitum (við notuðum 4 lítil)
1 pakki tilbúið smjördeig (400 gr) (stundum kallað filo-deig, sjá hér )
Ofan á bögglana
3 msk smjör, brætt
2 msk sykur
1/4 tsk kanill
Aðferð
Afþýðið smjördeigið.
Fylling
Blandið saman í skál sykri, hveiti og kanil. Bætið eplum út í og hrærið.
Fletjið hverja plötu af smjördeiginu út og skerið í ferninga. Setjið hæfilega mikið af fyllingu á deigið (hversu mikið er hæfilegt fer auðvitað eftir því hversu stóra ferninga þið búið til), brjótið saman skáhallt (þannig að úr verði þríhyrningur) og pressið brúnunum saman til að loka þeim. Setjið á bökunarpappír.
Ofan á bögglana
Blandið saman smjöri, sykri og kanil, burstið bögglana með þessu.
Bakið við 200 gr. c í 12 – 16 mínútur eða þar til gullinbrúnt.
Berið fram með vanilluís eða þeyttum rjóma.