Kökur

Karamellu-epla-ostakaka

Þegar ég sá þessa uppskrift á einu matarblogginu sem ég fylgist með þá missti ég næstum andann af græðgi! Þvílík endemisheppni að hann Binni minn skyldi eiga afmæli nokkrum dögum seinna – hin fullkomna afsökun til að prófa dýrðina (þarf maður samt nokkuð svoleiðis þegar um svona fullkomnum er að ræða?)

Þessi kaka er nákvæmlega það sem hún segist vera, bæði eplakaka OG ostakaka. Og namminammi – þvílíkt sælgæti! Binni sagði að eplaostakan á cheesecake factory væri rusl við hliðina á þessari 😉

Þó að uppskriftin sé löng þá er kakan mjög einföld – hún er búin til í lögum (layers) þannig að fyrir vikið lítur uppskriftin kannski út fyrir að vera flókin, þó hún sé það alls ekki. Það gildir bara að lesa uppskriftina einu sinni vel áður en maður byrjar og hafa nægan tíma 🙂

Karamellu epla-ostakaka!

Botninn
12 digestive kexökur
3 msk sykur
1/2 tsk kanill
75 gr. smjör

Hnetu og karamellu lag
180 ml karamellusósa með salti (ég bý hana til sjálf (t.d. uppskrifti hér) og finnst það best en það má auðvitað kaupa karamellusósu út í búð)
1 bolli hnetur (pekan eða valhnetur)

Eplin
70 gr smjör
110 gr púðursykur
1 tsk kanill
1/4 tsk salt
5 græn epli, afhýdd og kjarninn tekin úr, í þunnum sneiðum

Ostakakan
225 gr. rjómaostur
50 gr sykur
1 egg, við stofuhita
1msk sítrónusafi
1 tsk vanilludropar

Þeyttur rjómi
180 ml rjómi
3 msk flórsykur

Ofninn hitaður í 190 gr c. Best er að sníða smjörpappír til og setja í botninn á springformi eða lausbotna bökuformi.

Til að búa til botninn er Digestive-kexið mulið alveg niður. Blandað saman við sykur, kanil og smjör með gaffli þar til allt er vel blandað saman. Sett í formið og mulningnum er þjappað á botninn og  upp á hliðarnar (svona ca. 2/3 af leiðinni upp á hliðarnar). Bakað í 6 – 8 mínútur. Látið kólna í 10 mínútur.

Karamellu hellt yfir botninn og svo söxuðum hnetum yfir hana. Sett í kæli meðan fyllingin er búin til.

Eplafyllingin er gerð með því að bræða smjörið á pönnu á miðlungshita. Púðursykri, salti og kanil bætt við og látið ná suðu. Eplunum er þá bætt við og hrært vel í til að hylja þau alveg. Látið eldast við meðalháan hita þar til eplin eru orðin alveg mjúk og vökvinn er því sem næst gufaður upp (tekur upp undir 20 mínútur). Látið kólna í nokkrar mínútur og svo sett yfir hneturnar í bökuskelinni. Lagt til hliðar.

Ofninn er lækkaður í 175 gr. c. Ostakakan er búin til þannig að rjómaosturinn og sykurinn er þeytt saman í hrærvél þar til slétt. Vanillunni, egginu og sítrónusafanum er bætt við og hrært þar til alveg slétt, ca. 2 mínútur. Ostakökunni er dreift yfir eplin og bakað í u.þ.b. 30 mínútur eða þar til hnífur kemur hreinn úr miðjunni á kökunni.  Látið kólna og svo sett í kæli í minnst 4 klst eða yfir nótt.

Þeytið rjómann með flórsykrinum þegar bera á kökuna fram. Dreift yfir kökuna og svo skreytt með karamellu og hnetum ef vill.

Myndi ég baka þetta aftur? Já! Þessi kaka er algert hnossgæti. Hún fær 6 stjörnur af 5 mögulegum.

8 athugasemdir á “Karamellu-epla-ostakaka

    1. Sæl Sólrún, af því að ég setti ekki inn uppskrift að karamellunni þá kemur það ekki fram að hún á að sjálfsögðu að vera kólnuð þegar þú hellir henni yfir rjómann 🙂 Kv. Stína

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s