Við erum með einn rifsberjarunna í garðinum sem við höfum vanalega nota uppskeruna af í sultu. Sem betur fer mundi ég eftir þessari dásamlegu rifsberjaböku í tæka tíð þetta sumarið, sá uppskriftina nefnilega fyrir nokkrum árum og gleymi alltaf að gera hana þegar rifsberin eru orðin þroskuð.
Bakan brást ekki væntingum mínum – hún var æðislega góð og rann ljúflega niður hjá öllum heimilismeðlimum og gestunum sem voru í heimsókn þann daginn. Stór bónus að hægt er að undirbúa hana (og í raun betra) daginn áður svo þá getur maður dundað sér við eitthvað annað en að svitna yfir eftirréttargerð þegar maður er að fá gesti!
Rifsberjabaka
Skel
150 gr smjör
¾ dl sykur
3 dl haframjöl
2 dl kornax hveiti
Fylling
1,5 dl rjómi
50 gr smjör
1,5 dl ljóst síróp
½ dl sykur
200 gr ljóst súkkulaði
2 dl rifsber, hreinsuð
Stillið ofninn á 200°c
Skel
Bræðið smjörið í potti. Bætið sykri, haframjöli og hveiti út í. Hrærið saman þar til orðið að deigi. Setjið deigið í bökuform, notið fingur til að fletja deigið út í forminu. Bakið í 10 – 12 mín.
Fylling
Setjið rjóma, smjör, síróp og sykur í pott. Látið suðuna komið upp. Látið malla á vægum hita í 10 – 15 mín, karamellan á að byrja að þykkna. Takið af hellunni. Brjóið súkkulaðið í litla bita og setjið út í pottinn. Látið bráðna og hrærið í á meðan. Hellið súkkulaðikaramellunni í bökuskelina og stráið rifsberjunum yfir. Látið kökuna stífna í kæli, gjarnan yfir nótt.
