Kökur · Tertur

Prinsesstårta

Eins og margir hafa væntanlega tekið eftir þá er ég óskaplega veik fyrir kanil og lakkrís. Það hefur kannski ekki farið jafn mikið fyrir því en þegar það kemur að marsipani þá bara á ég bara mjög erfitt með að hemja mig. Mér finst algerlega nauðsynlegt að fermingarveislur bjóði uppá kransaköku og rjómatertur með marsipani ofaná eru guðdómlegar. Það er ekki oft sem manni er boðið í veislur þar sem eru hnallþórur með marsipani og þá verður maður bara að útbúa fixið sitt sjálfur 😉 

Þegar við bjuggum í Svíþjóð þá komst ég í kynni við Prinsesstårta. Þetta er draumur í formi köku skal ég ykkur segja. Halli vaknaði eldsnemma á afmælinu mínu og keypti svona tertu handa mér, hana borðaði ég í morgunmat, hádegismat og nasl á meðan ég beið eftir kvöldmatnum. 

Ég er búin að vera með það á verkefnalistanum lengi að baka hana. Tækifærið kom þegar örverpið varð eins árs, ég meina honum er alveg sama þó hann fái ekki einhverja Dóru- eða Stubbaköku. Það voru liðnir 5 mánuðir sína ég fékk sneið síðast og aldeilis kominn tími til að fá sér prinsessutertu. Þess má geta að þær eru venjulega húðaðar með grænu marsipani en það er ekki til hér á landi tilbúið útflatt!! 

Ef það hefur ekki skilað sér nógu vel þá er tryggara að segja það beint út: “Princesstårta er besta kaka í heimi” 😉 

Prinsessuterta 

Botninn 

4 egg 
2 dl sykur 
2 tsk lyftiduft 
2 dl hveiti 

Vanillukrem 

1 1/2 dl rjómi 
1 1/2 dl mjólk 
3 eggjarauður 
1 1/2 msk maizena maismjöl 
1 1/2 msk sykur 
2 msk vanillusykur 

Fylling 

hindberjasulta 
4-5 dl rjómi 

Skraut 

Odense marsípan sem búið er að fletja út/marsípanlok 
Flórsykur 
2-3 molar af suðusúkkulaði 

Aðferð 

Stillið ofninn á 180°gráður og smyrjið lausbotna kökuform. 

Botninn: Þeytið vel saman eggin og sykurinn. Hrærið hveitinu og lyftiduftinu saman við. Hellið deiginu í kökuformið og bakið í 25 min. Takið út þegar prjónn kemur hreinn upp úr kökunni. Látið kólna. 

Vanillukrem: Blandið saman öllum innihaldsefnunum nema vanillusykrinum í pott. Hitið kremið á miðlungs hita þar til það hefur þykknað, hrærið í með písk allan tíman. Látið kremið kólna í ísskáp. Þegar kremið er alveg orðið kallt er vanillusykrinum hrært saman við. 

Þeytið rjómann sem fer í fyllinguna 

Deilið kökunni í 3 botna. Leggið fyrsta botninn á kökufat og smyrjið hindberjasultunni á botninn, passið að smyrja alveg út í enda. Leggið næsta botn ofan á fyrsta botninn og smyrjið vanillukreminu ofaná. Leggið síðasta botninn ofan á vanillukremið og endið með með að smyrja þeytta rjómanum ofaná kökuna. Mótið rjóman í kúpul. 

Til að minnka vesenið mæli ég með því að kaupa tilbúið útflatt marsipan en það fæst í flestum ef ekki öllum búðum. Setjið marsipanið yfir kökuna og reynið að ná því sléttu niður með hliðunum. Skerið burt umfram-marsipan. Sniðugt er að rúlla upp afgangs marsipaninu og settja upprúllaða lengju meðfram kökunni til að fela ósamfellur 😉 

Bræðið súkkulaðið og skreytið kökuna með því. Einnig er sniðugt að búa til marsipanrós og setja í miðjuna á tertunni. Sáldrið flórsykri yfir að lokum. 

Hindberjasultan komin á fyrsta botninn 

Tilbúna marsipanið kemur útflatt og upprúllað 

Vanillukremið og rjóminn komin á sinn stað 😉 

Svona lítur marsipanið út þegar búið er að taka það úr kassanum 

Þetta var frumraun hjá mér og hefði alveg mátt fara betur, ég fer bara í það að æfa mig (namm namm, fleiri prinsessutertur fyrir mig!) 

Svona leit kakan út þegar ég var búin að skreyta hana 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s